Skip to main content

Skynjun og skynfæri – manna og dýra

Skynjun og skynfæri – manna og dýra - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
4. nóvember 2025 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 304

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ, heldur erindi í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „Skynjun og skynfæri – manna og dýra.“

Málstofan er í stofu 304 í Árnagarði, þriðjudaginn 4. nóvember kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin. 

Um erindið

Víða erlendis hefur nokkur hópur sagnfræðinga tekið að skoða kerfisbundið fyrirbærin sem verða viðfangsefni þessa fyrirlestrar. Fræðasvið hafa fegnið margskonar heiti sem eru lýsandi fyrir nálguna hverju sinni; saga skynjunar (history of senses), saga skynfæra (sensory history), saga tilfinninga (history of emotion), lyktarheimur (smellspace), lyktarskynsfræði (olfactory), saga snertingar (cultural history of touch) og dýrasögur (animal history) – allt efni sem hafa fengið vaxandi vægi innan sagnvísinda hin síðari ár. Það sem einkennir þessar fræðitilraunir er að þær eru oft flóknar og erfitt að nálgast heimildir sem þeim tengjast. Jöfnum höndum er því rætt um tilfinningar og skynjun, enda eru skilin þar á milli oft óljós. Rætt verður sérstaklega um tengslin á milli samfélaga og skynjunar manna og dýra í þessum fyrirlestri sem tengist gerð bókar sem er í vinnslu og er væntanleg til útgáfu 2027.

Um fyrirlesarann

Sigurður Gylfi Magnússon er prófessor í menningarsögu við Háskóla Íslands. Hann er höfundur þrjátíu bóka og fjölmargra greina sem birst hafa á Íslandi og erlendis. Hann hefur einkum fengist við menningar- og félagssögurannsóknir með áherslu á hversdagssöguna og sögu tilfinninga oft unnar með aðferðum einsögunnar.

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ.

Skynjun og skynfæri – manna og dýra