Satt að segja: sannsögur og skáldskapur

Edda
Fyrirlestrasalur
Miðvikudaginn 12. nóvember kl. 16:30 verður útgáfu þriggja nýrra bóka fagnað með upplestrum og umræðum í fyrirlestrasal Eddu. Þær eiga það allar sameiginlegt að geta kallast sannsögulegar. Ritlistin býður upp á ýmsar leiðir til þess að nálgast sannleikann, ýmist í gegnum sannsögur, skáldævisögur eða skáldsögur. Í þessu spjalli verða innri og ytri mörk sannleikans könnuð.
Bækurnar sem ræddar verða eru:
Mzungu eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur og Simon Okoth Aora. Það er eftirvænting í loftinu þegar Hulda kemur til Kenía þar sem hún ætlar að starfa á heimili fyrir munaðarlaus börn. Íslendingurinn Skúli er í forsvari fyrir heimilið og virðist stýra því af miklum myndarskap og hlýju. Þegar líða tekur á dvölina fer Huldu þó að gruna að ekki sé allt með felldu. Verðlaunahöfundurinn Þórunn Rakel Gylfadóttir og Simon Okoth Ahora, meðhöfundur hennar, draga af næmni og skarpskyggni upp æsilega atburðarás byggða á sönnum atburðum um líf og örlög fólks í Kenía.
Áður en ég brjálast – játningar á miðjunni eftir Soffíu Bjarnadóttur. Kona á miðjunni flytur til Kalima þar sem ryk og sandur frá Sahara þyrlast um. Heimsmyndin er að molna og hún raðar saman minningabrotum sem hafa umbreytt tilverunni. Dimmblár drykkfelldur hestur verður á vegi hennar og fylgir henni áleiðis að hvörfum.
Áður en ég brjálast – játningar á miðjunni er feminískt skáldverk eftir Soffíu Bjarnadóttur um ástir, ólík breytingarferli og lífsreynslu róttækrar móður sem leitar heim í skáldskapinn þar sem goðsagnaverur vappa um. Úr verður mósaík minninga, áleitin samtíðarsaga sem er full af óslökkvandi ævintýraþrá, næmi og tragikómískum galsa.
Andlit eftir Bjarna M. Bjarnason. Hér segir Bjarni M. Bjarnason frá því hvernig hann elur sig að mestu upp sjálfur á áttunda áratug síðustu aldar, þvælist milli staða innanlands og utan og kynnist ótrúlegasta fólki; slöngukonu sem þjónað hefur heimsfrægum leikara, amerískum gúrú sem nærist á íslenskum sálum, Kleópötru sem hefur áhuga á lifnaðarháttum neðanjarðarskálda, sænskum lögreglumönnum sem finnast draumar grunsamlegir, taugatrekktum flugfreyjum og draugum af ýmsu tagi.
Bjarni M. Bjarnason hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, nú síðast var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Dúnstúlkuna í þokunni.
Viðburðurinn er á vegum Ritlistarinnar við HÍ. Verið öll hjartanlega velkomin.
Miðvikudaginn 12. nóvember verður útgáfu þriggja nýrra bóka fagnað með upplestrum og umræðum í fyrirlestrasal Eddu.
