Nýsköpun í sjávarútvegi – gönguferð við Reykjavíkurhöfn
Staðsetning gefin upp síðar.
Sigurjón Arason, prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís, leiðir göngu á slóðir nýsköpunar í við höfnina í Reykjavík laugardaginn 29. maí. Gangan er hluti af Nýsköpunarvikunni og jafnframt liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands undir yfirskriftinni Með fróðleik í fararnesti. Með honum í för verður Vignir Albertsson, fyrrverandi skipulagsfulltrúi hjá Faxaflóahöfnum.
Hist verður við Kaffivagninn kl. 11. Ætlunin er að ganga um bryggjurnar þar sem fiskvinnslan hefur gjarnan verið mest í Reykjavík og útgerðin hvað mest áberandi en í seinni tíð hafa fjölbreytt sprota- og þjónustufyrirtæki tengd sjávarútvegi einnig komið sér fyrir þar. Þar er frjótt umhverfi þar sem starfsmenn ólíkra fyrirtækja stinga saman nefjum til hagsbóta fyrir heila atvinnugrein eins og göngugestir munu kynnast.
Sigurjón hefur á löngum ferli unnið með fjölmörgum sjávarútvegsfyrirtækjum að margs konar nýsköpunarverkefnum sem skilað hafa bættum búnaði og betri nýtingu afla í sjávarútvegi og aukið þannig hag greinarinnar. Hann þekkir enn fremur vel þá þróun sem orðið hefur í vinnslu aflans og mun fjalla um þær stórstígu breytingar sem orðið hafa á síðustu áratugum.
Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni, nýrri hátíð í Reykjavík sem fer fram dagana 26. maí -2. júní. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. Nánar á nyskopunarvikan.is
Sigurjón Arason, prófessor emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís,