Katrín THoroddsen og frjálsar ástir - Hádegiserindi RIKK

Þjóðminjasafn Íslands
Í tilefni Kvennaársins 2025 verður hádegisfyrirlestradagskrá RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á haustmisseri tileinkuð konum sem hafa staðið í andstreymi og háð baráttu fyrir mannréttindum og breyttri stöðu kvenna.
Fyrsta erindið verður í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands miðvikudaginn 8. október á milli klukkan 12 og 13.
Þar mun Kristín Ástgeirsdóttir flytja fyrirlestur undir heitinu "Katrín Thoroddsen og frjálsar ástir". Í erindinu ræðir Kistín umræður um frjósemisréttindi kvenna eða réttinn til að ráða yfir eigin líkama sem hófust fyrir alvöru undir lok 19. aldar. Mættu þær mikilli andstöðu þrátt fyrir mikinn mæðra- og barnadauða. Hér á landi þýddu kvenfrelsiskonur fræðslurit og árið 1931 reið Katrín Thoroddsen læknir og síðar Alþingiskona á vaðið með fyrirlestri sem hún kallaði „Frjálsar ástir“. Hver var boðskapur Katrínar og hvernig kallast hann á við þá stöðu sem blasir við okkur núna? Hvaða andmælum mætti Katrín?
Efnið á vel við því á meðan íslenskar konur minnast áunninna réttinda undanfarin 50 ár geisar stríð gegn konum víða um heim. „Líkamar kvenna eru orustuvöllur“ hefur verið algengt slagorð í kvennabaráttunni undanfarna áratugi. Það hefur sjaldan átt betur við en nú. Í fjölmörgum löndum er sótt að frjósemisréttindum kvenna. Konur eru sviptar réttindum, getnaðarvarnir eru bannaðar sem og þungunarof og upp eru komnar „anti gender“ hreyfingar sem berjast gegn réttindum kvenna. Ofbeldi og ógnunum er beitt til að halda konum niðri, ekki síst á samfélagsmiðlum. Konur (hvítar) eru hvattar til að eiga börn til að rétta hlut hvíta kynstofnsins sem sumum finnst halla á.
Getum við lært af Katrínu og baráttu hennar?
Kristín Ástgeirsdóttir er MA í sagnfræði og starfaði sem blaðamaður og kennari áður en hún tók sæti á Alþingi fyrir Kvennalistann 1991-1999. Kristín vann við friðargæslu í Kosovo 2000-2001, stundaði kynjarannsóknir um skeið og var síðan framkvæmdastýra Jafnréttisstofu 2007-2017. Hún er nú sjálfstætt starfandi kvenfrelsiskona og aktívisti.