Hvað er í gangi í íslenskri máltækni? Gervigreind og nemendakynningar

Veröld - Hús Vigdísar
Stofa 008
Í haust hafa farið fram vikulegir fyrirlestrar á vegum Máltækniseturs. Fyrirlesarar frá HÍ, Árnastofnun og HR hafa kynnt yfirstandandi rannsóknarverkefni og nýsköpunarfyrirtæki sagt frá starfsemi sinni. Fjallað hefur verið um efni á borð við risamállíkön og gervigreind, talgreiningu og -gervingu og málvinnslu.
Þann 10. nóvember er eitt erindi á dagskrá en á undan því kynna þrír nemendur í máltækni og almennum málvísindum það sem þau eru að vinna innan íslenskrar máltækni.
- Kl. 15–15:40. Nemakynningar
- Kl. 15:50–16:30. Gervigreind. Kristinn R. Þórisson
Um er að ræða síðasta viðburð haustins. Fyrirlestraröðin fer fram í stofu 008 í Veröld.
Um fyrirlestur Kristins:
Gervigreind og tungumál: Tækni, samhengi, framtíð
Gervigreind hefur hreiðrað vel um sig í hugum margra og margir eltast við þau fjölmörgu tækifæri sem talið er að tæknin bjóði upp á. Skilningur á því hver þau eru, hvernig þróun tækninnar muni vinda fram, og hver hin raunverulegu tækifæri séu, er hins vegar oft af skornum skammti. Þar sem gervigreindarsviðið fæst við sjálfvirknivæðingu fyrirbærisins greind verður að taka mið af eðli fyrirbærisins, og helstu áskoranir í rannsóknum á því, ef svara á slíkum spurningum. Tungumálakunnátta er einn helsti máttarstólpi þjóðfélagsins og færni á því sviði eitt af því sem skilur greind manneskju frá öðrum dýrategundum, en tungumál virðist þó samt verkfæri en ekki meistari alhliða greindar. En er tungumálageta það sama og skilningur á því hvernig beita megi tungumálinu. Hver eru tengsl tungumáls og skilnings almennt? Slíkar spurningar er vert að velta fyrir sér við þróun og beitingu gervigreindar í tungu- og máltækni. Í fyrirlestrinum mun ég útskýra samhengi þessara hugtaka, hvaða þátt þau spila í þróun gervigreindartækni, og stikla á stóru um þjóðfélagsleg áhrif þess næstu þrjá áratugina.
Í haust hafa farið fram vikulegir fyrirlestrar á vegum Máltækniseturs. Fyrirlesarar frá HÍ, Árnastofnun og HR hafa kynnt yfirstandandi rannsóknarverkefni og nýsköpunarfyrirtæki sagt frá starfsemi sinni.
