Doktorsvörn: Veronica Mpomwenda

Aðalbygging
Hátíðasalur
Opinber vörn doktorsritgerðar Veronicu Mpomwenda í umhverfis og auðlindafræði frá Háskóla Íslands
Heiti ritgerðar
Áskoranir í stjórnun veiða á nílarkarfa í Viktoríuvatni.
Veronica Mpomwenda mun verja doktorsritgerð sína sem nefnist „Áskoranir í stjórnun veiða á nílarkarfa í Viktoríuvatni“ opinberlega föstudaginn 16. janúar 2026 við Háskóla Íslands, í Hátíðasal, Aðalbyggingu.
Vörnin hefst kl. 13:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru Jeppe Kolding prófessor í fiskifræði, Líffræðideild Háskólans í Bergen Noregi og Mafaniso Hara, prófessor í stjórnun náttúruauðlinda við Institute for Poverty, Land and Agrarian Studies (PLAAS), Háskólanum í Western Cape, Suður Afríku.
Leiðbeinendur eru Daði Már Kristófersson prófessor í hagfræði og Jón Geir Pétursson prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, báðir við Háskóla Íslands.
Í doktorsnefnd Veronicu sátu:
Daði Már Kristófersson, prófessor, Háskóli Íslands
Jón Geir Pétursson, prófessor, Háskóli Íslands
Dr. Tumi Tómasson – Sjávarútvegsskólinn. UNESCO-GRO Fisheries Training Programme (FTP)
Dr. Anthony Taabu-Munyaho, Lake Victoria Fisheries Organization (LVFO)
Um ritgerðina (opinbert ágrip)
Doktorsritgerð þessi inniheldur greiningu á fiskveiðum í Viktoríuvatni, með áherslu á veiðar smábáta á nílarkarfa. Ritgerðin byggir á fjórum ritrýndum vísindagreinum sem hafa verið birtar í alþjóðlegum tímaritum. Áhersla er lögð á þróun veiðimynsturs, aðlögun veiðanna að breytingum í stjórnun veiðanna sem og þróun stofnstærðar og árgangasamsetningar nílarkarfa. Jafnframt er fjallað um árangur og skilvirkni ólíkra leiða við fiskveiðistjórnun. Gögn um veiðar í Úganda liggja til grundvallar þremur af fjórum greinum, meðan fyrsta greinin er samanburðarrannsókn um skilvirkni veiða á nílarkarfa í öllum þremur löndunum sem liggja að Viktoríuvatni. Gögnin sem rannsóknin byggir á eru meðal annars mat á afla og búnaði sem notaður er við veiðarnar, sem sótt voru í gagnagrunna Fiskveiðistofnunar Viktoríuvatns (LVFO) og Fiskirannsóknastofnunar Úganda (National Fisheries Resources Research Institute), gögnum um útflutning á fiski, sem og eigindlegum og megindlegum gögnum sem safnað var sérstaklega fyrir rannsóknina. Mismunandi aðferðum er beitt við úrvinnslu gagna eftir markmiðum hverrar tímaritsgreinar.
Grein 1 inniheldur greiningu á tæknilegri skilvirkni veiða á nílarkarfa í Viktoríuvatni. Greiningin nær til allra þjóða sem stunda veiðarnar, Úganda, Kenýa og Tansaníu. Niðurstöðurnar sýna umtalsverða fjölgun vélknúinna báta, sérstaklega í Úganda, samhliða fækkun árabáta, en mjög hefur verið barist gegn veiðum þeirra í bæði Tansaníu og Úganda á undanförnum árum með hertu eftirliti. Í grein 2 er farið yfir þróun netaveiða á nílarkarfa í Úganda. Fjallað er um þær áskoranir sem veiðimenn standa frammi fyrir, s.s. varðandi möskvastærðir neta, samsetningu afla og fleira. Niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi þess að virkja notendur auðlinda í ákvarðanatöku um þróun fiskveiðistjórnunar. Grein 3 er rannsókn á þróun veiðiálags og aflabreyta meðal netaveiðimanna í Úganda, með áherslu á leiðir til aðlögunar að breytingum í veiðistofni og efnahagslegra þarfa. Greinin undirstrikar nauðsyn þess að huga að viðbrögðum og hegðun fiskimanna við stefnumótun fyrir sjálfbæra nýtingu auðlinda og þróun lífsviðurværis. Grein 4 fjallar um áhrif þess að hverfa frá samvinnu yfir í valdbeitingu við stjórnun á nílarkarfaveiðum í Úganda, en stjórnvöld þar stigu það róttæka skref að fá herinn til þess að framfylgja reglum um veiðar. Sú aðgerð var ákveðin vegna minnkandi afla og offjárfestingu í vélknúna hluta flotans. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að fiskveiðistjórnun taki tillit til svæðisbundins efnahagslegs mismunar og flóknu samspili hegðunar fiskimanna, hversu vel þeir fylgja settum reglum og stöðu auðlindarinnar.
Á heildina litið veita þessar rannsóknir innsýn í skipulag og stjórnun smábátaveiða á Viktoríuvatni. Smábátaveiðar eru stundaðar um alla Afríku, og því er hægt að draga mikilvægan lærdóm af niðurstöðunum. Greiningin gefur til kynna að hvorki núverandi né sögulegar aðferðir við fiskveiðistjórnun í Viktoríuvatni hafi reynst nægjanlega árangursríkar. Hver aðferð hefur haft sína veikleika. Þörf er á nýjum leiðum til að tryggja sjálfbærni veiðanna og efnahagslega velferð fólksins sem er háð veiðunum sér til framfærslu.
Vörnin fer fram á ensku og er öllum opin.
Veronica Mpomwenda ver doktorsritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði
