Skip to main content

Doktorsvörn í sálfræði - Örnólfur Thorlacius

Doktorsvörn í sálfræði - Örnólfur Thorlacius - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
22. febrúar 2019 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Föstudaginn 22. febrúar ver Örnólfur Thorlacius doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Parents’ estimates of their children’s emotional competence and adjustment. Development of two new instruments, reliability, validity and screening effectiveness. Mat foreldra á færni og aðlögun barna á tilfinningasviði: Þróun á tveim nýjum matstækjum og mat á áreiðanleika, réttmæti og skilvirkni skimunar.

Andmælendur eru dr. Jacqueline Barnes, prófessor við Birkbeck, University of London, og dr. Sif Einarsdóttir, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Einar Guðmundsson, prófessor við Sálfræðideild.  Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Sigurður J. Grétarsson, prófessor við Sálfræðideild og dr. Sigurgrímur Skúlason, próffræðingur hjá Menntamálastofnun.

Dr. Daníel Þór Ólason, prófessor og forseti Sálfræðideildar Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Atferlislistar eru mikið notaðir í mati á hegðun og líðan barna. Við notkun þeirra er athyglinni yfirleitt beint að frávikshegðun eða geðrænum einkennum. Gallinn er að þetta gefur takmarkaðar eða engar upplýsingar um heilbrigðan þroska. Það hefur ýmsar afleiðingar bæði í rannsóknum og klínísku mati, meðal annars að draga úr tölfræðilegum afköstum (e. statistical power) og næmi (e. sensitivity) til að finna þau börn sem eru rétt undir greiningarviðmiðum geðraskana. Af þeim sökum er mest gagn að listunum í mati á börnum sem eru þegar í vanda, en síður þegar kemur að heilbrigðum börnum eða þeim sem eru á mörkum þess að vera í vanda.

Tilgangur rannsóknarinnar er tvíþættur. Í fyrsta lagi að lýsa þróun og próffræðilegum eiginleikum frumsamins atferlislista sem metur tilfinningastjórn barna á grunnskólaaldri, auk leikskólaútgáfu hans. Við hönnun beggja matstækjanna var stuðst við nýstárlega aðferð þar sem hegðun og líðan barna er metin út frá heilbrigðum félags- og tilfinningaþroska í stað frávikseinkenna. Þannig er fræðilegur grundvöllur matsins styrktur og það getur náð til allra barna, ekki eingöngu þeirra sem eiga við vanda að etja. Í öðru lagi að athuga skilvirkni grunnskólaútgáfu listans í skimun á hegðunar- og tilfinningavanda barna.

Til þátttöku voru fengnir grunn- og leikskólar í öllum landshlutum og skilaði það nothæfum svörum mæðra samtals 3502 barna á aldrinum 3-13 ára. Niðurstöður sýna að þáttabygging bæði grunnskólalistans og leikskólaútgáfunnar eru stöðugar milli óháðra úrtaka og að grunnskólalistinn er gagnlegur í skimun til að finna þau börn sem glíma við hegðunar- eða tilfinningavanda. Af niðurstöðunum að dæmi er skýr ávinningur af því að þróa breiðar hugsmíðar sem ná ekki aðeins utan um geðrænan vanda hjá börnum heldur einnig heilbrigðan félags- og tilfinningaþroska. Gert er ráð fyrir að matskvarðarnir nýtist í rannsóknum á eðlilegum og óvenjulegum þroskaferlum og auki skilning á undanfara geðraskana hjá börnum, svo sem hvernig kvíði þróast á leik- og grunnskólaaldri. Þeir munu einnig gagnast vel í mati og skimun á geðrænum vanda hjá börnum og gefa mikilvægar upplýsingar um tilfinningastjórn þeirra, bæði styrkleika og veikleika, sem nýta má í forvarnavinnu og meðferð.

Abstract

Rating scales are commonly used in assessment of children’s social-emotional functioning. As these instruments are typically designed to detect emotional or behavioral disturbance, they are usually orientated toward symptoms or problem behaviors. When such deficit-based scales are administered in the general population, they lack or exclude valuable information on individual differences in the normal range. This reduces their statistical power and may lead to failure to identify subclinical difficulties. For these reasons, deficit-based scales are most useful in assessment of children who already experience psychological problems, but less so with regard to normally developing children.

The aim of the thesis is twofold: 1) to describe the development, reliability and validity of two parent-answered rating scales, the Children’s Emotional Adjustment Scale (CEAS) for school aged-children, and its preschool version (the CEAS-P), both specifically designed to assess the emotional competence of all children on factors anchored in healthy social-emotional development, and 2) to examine the effectiveness of the CEAS in screening mental health problems among school-age children.

The participants in the study were mothers of a total of 3502 children 3-13 years of age, recruited by schools in all regions of Iceland. The results show that the factor structures of the CEAS and the preschool version are stable across independent samples, and that the CEAS is effective in screening for emotional and behavioral problems in school children. The results demonstrate clear benefits of developing broad constructs that cover both healthy and healthy social-emotional development. The two CEAS instruments are likely to be useful in research on typical and atypical child development and may increase understanding of prerequisits of mental disorders. The scales may also prove useful in assessment and screening for mental health problems in childhood, and provide practitioners with important information on children‘s emotional competence, both strengths and weaknesses, which can be utilized in treatment and prevention planning.       

Um doktorsefnið

Örnólfur Thorlacius er fæddur árið 1979. Hann lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og cand. psych. prófi frá sama skóla árið 2010. Að loknu námi vann Örnólfur sem verkefnisstjóri hjá Barnaheillum - Save the Children á Íslandi við rannsókn, ásamt fleiri Evrópulöndum, styrkt af Daphne-áætlun Evrópusambandsins, þar sem kannaðir voru verkferlar/samhæfing stofnana við vinnu með börnum sem verða vitni að heimilisofbeldi. Niðurstöðurnar áttu þátt í að vinnuferlum hérlendis vegna heimilisofbeldis var breytt. Örnólfur vann sem sálfræðingur hjá þjónustumiðstöðinni Miðgarði 2011-2012. Örnólfur hefur verið stundakennari í mælinga- og próffræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands frá 2009. Hann er í rannsóknarteymi PMTO-foreldrafærni á Íslandi, í samvinnu við Oregon Social Learning Centar og Nasjonalt Utviklingssenter for Barn og Unge í Ósló. Meðfram doktorsnáminu var hann auk þess annar þýðanda bókanna „Órólfur - sögubók fyrir börn um áráttu- og þráhyggju“ og „Ráð handa kvíðnum krökkum - fyrir fjölskyldur barna og unglinga sem glíma við kvíða“ ásamt vinnubók. Hann hefur verið varaformaður Tourette-samtakanna frá 2011. Örnólfur er starfandi sálfræðingur hjá Sól sálfræði- og læknisþjónustu. Foreldrar Örnólfs eru Sigurður Thorlacius og Sif Eiríksdóttir. Maki er Íris Lilja Ragnarsdóttir og eiga þau tvær dætur, Hrafnhildi 8 ára og Ylfu 4 ára. 

Örnólfur Thorlacius ver doktorsritgerð sína í sálfræði við Sálfræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 22. febrúar kl. 13:00

Doktorsvörn í sálfræði - Örnólfur Thorlacius