Skip to main content

Doktorsvörn í menntavísindum: Guðrún Björg Ragnarsdóttir

Doktorsvörn í menntavísindum: Guðrún Björg Ragnarsdóttir  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
9. nóvember 2023 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðarsalur Aðalbygging Háskóla Íslands.

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Guðrún Björg Ragnarsdóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda við Háskóla Íslands. 

Vörnin fer fram fimmtudaginn 9. nóvember kl. 13:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands og verður einnig streymt.

Hlekkur á streymi hér

Heiti ritgerðar: Börn með námserfiðleika: Sjálfsmynd, líðan og skólareynsla þeirra.

Andmælendur: Dr. Jan Hasbrouck, prófessor við Texas A&M University í Bandaríkjunum og dr. Christine Espin, prófessor við Universiteit Leiden í Hollandi.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Anna-Lind Pétursdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi dr. 

Meðleiðbeinandi: Dr. Zuilma Gabríela Sigurðardóttir, prófessor við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Annadís G. Rúdolfsdóttir, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og dr. Kristján Ketill Stefánsson, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Karen Rut Gísladóttir, varaforseti Deildar kennslu- og menntunarfræði stýrir athöfninni í fjarveru forseta og varaforseta Deildar heilsueflingar, íþrótta og tómstunda.

Verið öll velkomin.

Um verkefnið: 

Viðfangsefni doktorsrannsóknarinnar er sjálfsmynd, líðan og skólareynsla barna með námserfiðleika. Um er að ræða fyrstu íslensku langtímarannsóknina þar sem líðan og reynsla barna með námserfiðleika af skólagöngu sinni er könnuð. Rannsóknin var þríþætt: Foreldrar barna með og án námserfiðleika (N = 327) voru beðin um að meta skólatengda líðan barna sinna. Börn í 4. – 8.bekk (N = 264) svöruðu matslistum um sjálfsmynd sína endurtekið yfir fjögurra ára tímabil og á sama tímabili var endurtekið rætt við börn með námserfiðleika (N = 5) um skólagöngu sína, áskoranir og bjargráð, til að fá innsýn og skilning á aðstæðum þeirra í skólanum. Foreldrar svöruðu rafrænum spurningalista í eitt skipti  um líðan barna sinna þar sem stuðst var við foreldraútgáfur KIDSKREEN-52 og KINDLR spurningalistanna. Nemendur svöruðu The Self-Perception Profile for Learning Disabled Students spurningalistanum um almenna sjálfsmynd, námslega sjálfsmynd, sjálfsmynd í lestri og stærðfræði, í sex skipti yfir fjögurra ára tímabil Hálfstöðluð viðtöl voru tekin við fimm nemendur í fjögur skipti.

Niðurstöður sýna að foreldra mátu líðan barna sinna töluvert til mikið verri (d = 0,45 – 0,88) hjá börnum með námserfiðleika en hjá jafnöldrum án námserfiðleika. Líðan barna með námserfiðleika sem fóru reglulega í sérkennslutíma var mikið betri (d = 0,7) hvað snerti samskipti við fjölskyldu en barna með námserfiðleika sem fengu ekki sérkennslu, að mati foreldra. Börn sem fengu sérkennslu í sérrými áttu í mun jákvæðari (d = 1,16) samskiptum við fjölskyldu sína. Þróun almennrar sjálfsmyndar hjá börnum með námserfiðleika reyndist jákvæð frá einu ári til annars (Δz = 0,2). Á rannsóknartímanum reyndist námsleg sjálfsmynd hjá nemendum með námserfiðleika að meðaltali mikið lakari (Δz = -0,7) en hjá nemendum án námserfiðleika. Sjálfsmynd í lestri var að meðaltali mjög mikið lakari á rannsóknartímanum (Δz = -1,3) hjá nemendum með námserfiðleika samanborið við jafnaldra án námserfiðleika. Sjálfsmynd í stærðfræði var einnig að meðaltali mikið lakari hjá sama hópi (Δz = -0,8) samanborið við jafnaldra án námserfiðleika á umræddu tímabili. Viðtölin sem tekin voru við sömu nemendur með námserfiðleika yfir fjögurra ára tímabil leiddu í ljós að þeim leið almennt vel í skólanum, en líðan þeirra var mest háð félagstengslum og vináttuböndum við aðra nemendur. Góð tengsl við kennara voru álitin mikilvæg og að kennarar væru góðir, sanngjarnir og hlýlegir. Þátttakendur sögðust eiga í erfiðleikum með að skilja leiðbeiningar í almennum kennslustundum. Þau töldu einnig mikilvægt að ná góðum tengslum við kennara í sérkennslu. Viðmælendur mátu sérkennslutímana mikils, því þar væri hægt að fá meiri frið til að læra og meira næði væri til að einbeita sér og meðtaka námsefnið.

Um doktorsverkefnið:

Guðrún Björg fæddist í Reykjavík árið 1970. Hún lauk B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands 2002 og M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræði frá Háskóla Íslands árið 2011. Guðrún starfaði sem grunnskólakennari í 16 ár, en hefur starfað sem kennsluráðgjafi hjá Reykjavíkurborg frá 2018. Hún hefur verið í hlutastarfi sem stundakennari  við Menntavísindasvið Háskóla Íslands frá árinu 2018 og sem aðjúnkt frá 2023. Eiginmaður Guðrúnar er Ásmundur Ísak Jónsson. Börn þeirra eru Daníel Pétur, Viktor Yngvi, Bryndís Lára og Iðunn Brynja.

.

Doktorsvörn í menntavísindum: Guðrún Björg Ragnarsdóttir