Doktorsvörn í læknavísindum - Íris Kristinsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 27. október 2023 ver Íris Kristinsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Sjúkdómar sem fyrirbyggja má með bólusetningum hjá börnum, unglingum og ungu fólki á Íslandi – rótaveira, meningókokkar og inflúensa: Er þörf á umbótum? Vaccine preventable diseases in childhood, adolescence, and young adulthood in Iceland - rotavirus, meningococci, and influenza: Room for improvements?
Andmælendur eru dr. Hanna Nohynek, yfirlæknir og staðgengill forstöðumanns við Finnish Institute for Health and Welfare í Finnlandi og dr. Nigel Curtis, prófessor og yfirlæknir við Royal Children‘s Hospital Melbourne og Murdoch Research Institute Melbourne.
Umsjónarkennari var Ásgeir Haraldsson, prófessor, leiðbeinandi var Valtýr Stefánsson Thors, lektor og meðleiðbeinandi var Karl G. Kristinsson, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Magnús Gottfreðsson, prófessor og Þórólfur Guðnason, sérfræðingur.
Þórarinn Guðjónsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands og hefst kl. 15:00.
Ágrip af rannsókn
Bólusetningar eru á meðal mikilvægustu uppgötvana læknavísindanna. Mikilvægt er að bólusetningarskemu taki mið af framförum í þróun bóluefna og faraldsfræði smitsjúkdóma. Markmið doktorsverkefnisins var að meta þörf á umbótum á bólusetningum barna, unglinga og ungs fólks á Íslandi, með tilliti til rótaveiru, meningókokka og inflúensu. Doktorsverkefnið samanstóð af fjórum rannsóknum.
Í rannsókn I var sjúkdómsbyrði rótaveiru á ung börn og fjölskyldur þeirra metin, sem og kostnaðarhagkvæmni bólusetninga gegn rótaveiru. Rannsóknin tók til barna undir sex ára aldri sem komu á Bráðamóttöku barna með bráðar garnasýkingar á árunum 2017 og 2018. Rannsóknin sýndi að rótaveira er algengasta veiran í bráðum garnasýkingum sem leiða til komu á Bráðamóttöku barna. Hún veldur umtalsverðri sjúkdómsbyrði á ung börn og vinnutapi foreldra. Bólusetningar gegn rótaveiru væru kostnaðarhagkvæmar á Íslandi.
Í rannsókn II var algengi einkennalausrar meningókokka-sýklunar rannsakað hjá leikskólabörnum, 10. bekkingum og framhaldsskólanemum. Meningókokka-berum var fylgt eftir með endurteknum sýnatökum á 3-6 mánaða fresti í allt að 27 mánuði. Engin leikskólabörn báru meningókokka en 0,5% 10. bekkinga og 6,5% menntaskólanema voru meningókokkaberar. Algengast var að bera óhjúpaða meningókokka en af hjúpuðum meningókokkum voru meningókokkar B algengastir. Niðurstöður rannsóknarinnar, auk faraldsfræði ífarandi meningókokka-sýkinga á Íslandi, benda ekki til þess að þörf sé á breytingum á bólusetningum gegn meningókokkum á Íslandi.
Í rannsókn III var ónæmissvar við inflúensubólusetningu hjá unglingum með offitu rannsakað og borið saman við ónæmissvar hjá unglingum í kjörþyngd. Þrjátíu unglingar með offitu og 30 unglingar í kjörþyngd tóku þátt í rannsókninni. Blóðprufur voru teknar fyrir bólusetningu og fjórum vikum eftir bólusetningu. Bæði vessabundið og frumubundið ónæmissvar var svipað hjá hópunum tveimur.
Í rannsókn IV var upptaka inflúensubólusetningar meðal barnshafandi kvenna metin yfir 10 inflúensutímabil, 2010-2020, sem og sjúkdómsbyrði inflúensu hjá barnshafandi konum og ungbörnum þeirra á fyrsta ári lífs. Bólusetningarhlutfallið var lægst 6,2% á inflúensutímabilinu 2010-2011 en hækkaði yfir rannsóknartímabilið og var hæst 37,5% 2019-2020. Inflúensubólusetningar á meðgöngu vernda barnshafandi konur og ungbörn þeirra gegn inflúensu á því inflúensutímabili sem bólusetning er gefin.
Abstract
Vaccines are among the most important medical discoveries ever made. It is important to update national immunisation programmes according to new vaccine developments and current epidemiology of vaccine preventable diseases. The aims of the doctoral thesis were to assess the potential needs for improvements in the Icelandic national immunisation programme. The thesis consists of four studies.
In study I, the disease burden of rotavirus acute gastroenteritis on young children was assessed, as well as the cost-effectiveness of implementing rotavirus vaccinations in the Icelandic national immunisation programme. The study included children under the age of six years that attended a paediatric emergency department with acute gastroenteritis in the years 2017 and 2018. The study’s results show that rotavirus is the main cause of acute gastroenteritis in young children. It causes a substantial disease burden on young children and days missed from work for parents. The inclusion of rotavirus vaccinations in the national immunisation programme in Iceland would be cost-effective.
Study II assessed the prevalence of asymptomatic meningococcal colonisation among pre-school aged children, 15–16-year-old adolescents and 18–20-year-old young adults. Follow-up samples were collected with 3–6-month intervals from carriers, for up to 27 months. No pre-school children carried meningococci, but the carriage rate was 0.5% among adolescents and 6.5% among young adults. Colonisation with non-groupable meningococci was most common, followed by capsular group B. The results from the study, along with the epidemiology of invasive meningococcal disease in Iceland, does not suggest the need for altered meningococcal vaccination strategies.
In study III, the immune responses to influenza vaccinations were measured among adolescents with obesity and adolescents with normal weight. The study included 30 participants from each group. Blood samples were collected before and four weeks after vaccination. Both groups had similar humoral and cellular immune responses to influenza vaccinations.
Study IV assessed the influenza vaccine coverage among pregnant women in Iceland in the influenza seasons 2010-2020 and the burden of influenza among pregnant women and their infants. The lowest vaccination coverage was 6.2% in the influenza season 2010-2011 but increased over the period and was highest at 37.5% in 2019-2020. Influenza vaccinations in pregnancy protect pregnant women and their infants against influenza in the season of vaccination.
Um doktorsefnið
Íris Kristinsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1993. Hún er stúdent frá Verzlunarskóla Íslands. Íris lauk bakkalárgráðu í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands árið 2016 og kandídatsprófi í læknisfræði frá sama skóla 2019. Hún hóf doktorsnám í læknavísindum við Háskóla Íslands í júní 2019. Samhliða doktorsnámi hefur Íris starfað sem læknir á Landspítala.
Íris Kristinsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 27. október.