Doktorsvörn í læknavísindum - Agnar Bjarnason
Aðalbygging
Hátíðasalur
Miðvikudaginn 9. maí ver Agnar Bjarnason doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: „Orsakavaldar, áhættuþættir og afdrif fullorðinna með lungnabólgu.“ “Etiology, risk factors and outcomes for adults with pneumonia requiring hospital admission.“
Andmælendur eru Dr. David Murdoch, deildarforseti og prófessor við læknadeild Háskólans í Otago á Nýja Sjálandi og Dr. Gunnar Guðmundsson, prófessor og sérfræðingur í lyflækningum og lungnalækningum á Landspítala.
Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Magnús Gottfreðsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd Karl G. Kristinsson, prófessor, Arthúr Löve, prófessor, Ólafur Baldursson og Lars-Magnus Andersson.
Engilbert Sigurðsson, prófessor og deildarforseti við Læknadeild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Ágrip af rannsókn
Lungnabólga er algeng dánarorsök og ástæða sjúkrahúsvistar um allan heim. Fjölmargir meinvaldar geta valdið sjúkdómnum en þekkingu á algengi þeirra er ábótavant. Meðferð er gjarnan valin út frá faraldsfræðilegum upplýsingum.
Markmið rannsóknarinnar voru að skoða lungnabólgu sem leiðir til sjúkrahúsinnlagnar í Reykjavík, bæði almennt og sérstaklega í tengslum við heimsfaraldur inflúensu. Önnur markmið voru að bera PCR rannsóknir á munnkokssýnum saman við aðrar greiningaraðferðir og skoða gagnsemi hugtaksins sjúkrahústengd lungnabólgu við íslenskar aðstæður. Öllum fullorðnum sem þurftu innlögn vegna lungnabólgu frá desember 2008 til nóvember 2009 var boðið að taka þátt og víðtæk leit gerð að meinvöldum.
Nýgengi var 20,6 innlagnir vegna samfélagslungnabólgu á 10.000 fullorðna á ári. Meinvaldur fannst hjá 54% en S. pneumoniae (20%) og M. pneumoniae (12%) voru algengustu orsakir samfélagslungnabólgu. Veirur fundust hjá 15% en >1 meinvaldur hjá 10%. Notkun sýklalyfja fyrir innlögn tengdist breyttu mynstri meinvalda. Meðan heimsfaraldurinn 2009 stóð sem hæst höfðu 38% lungnabólgusjúklinga inflúensu. Alvarleiki lungnabólgu í þessum hópi var vanmetinn af alvarleikastigunarkerfum en þessir sjúklingar voru að jafnaði yngri en jafnframt líklegri til að þurfa gjörgæslumeðferð eða öndunarvél. Aðrir meinvaldar fundust hjá 23%.
Næmi og sértæki PCR rannsóknar á munnkokssýnum voru 87% og 79% fyrir S. pneumoniae og 75% og 80% fyrir H. influenzae. Neikvæðar niðurstöður höfðu sterkara forspárgildi en jákvæðar.
Stóran hluta lungnabólguinnlagna í Reykjavík (37%) mátti flokka sem sjúkrahústengda lungnabólgu sem tengdist breyttu mynstri orsakavalda. Dánartíðni var hærri í þessum hópi, 10% miðað við 1% í samfélagslungnabólgu. Engar fjölónæmar bakteríur greindust og gátu því ekki skýrt þennan mun.
Abstract
Pneumonia is a leading cause of death and hospital admission. While many causative agents have been identified, prior etiologic studies have had differing results.
The aims of this study were: to examine clinical factors and microbial etiology of community-acquired pneumonia (CAP) requiring admission in Reykjavik with a special focus on pandemic influenza related CAP; explore the diagnostic utility of PCR-analysis of oropharyngeal samples; and examine of health-care associated pneumonia (HCAP) in Reykjavík. Adult admissions to Landspitali due to pneumonia from December 2008 to November 2009 were recruited prospectively and etiological testing performed.
The incidence of hospitalization due to CAP was 20.6 admissions per 10,000 adults per year. An etiologic agent was detected in 54% of cases, most commonly S. pneumoniae (20%) and M. pneumoniae (12%). Viruses were found in 15% and >1 pathogen in 10%.
During the peak of the pandemic 38% of CAP admissions had influenza. Severity scores underestimated risk in this group which was younger but were more likely to require intensive care. Co-infections were detected in 23%. The sensitivity and specificity of oropharyngeal PCR was 87% and 79% for S. pneumoniae and 75% and 80% for H. influenzae. Over 1/3rd of admissions met criteria for HCAP. Mortality was 10% compared to 1% among CAP patients. No multiple-resistant bacteria were detected and microbial resistance did not explain this difference in mortality.
Um doktorsefnið
Agnar Bjarnason er fæddur 1978. Foreldrar hans eru Bjarni A. Agnarsson læknir og Sigríður Jónsdóttir lífeindafræðingur. Eiginkona hans er Brynja Ármannssdóttir læknir, og eiga þau börnin Ármann Bjarna og Bríeti Aðalbjörgu.
Agnar lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2005 og var í kjölfarið kandídat og síðar sérnámslæknir á Landspítala til 2010. Við tók framhaldsnám á Smitsjúkdómadeild Sahlgrenska háskólasjúkrahússins í Gautaborg en hann lauk sérnámi í lyflækningum 2012 og smitsjúkdómalækningum 2014. Í kjölfarið vann hann sem sérfræðingur við deildina þar til fjölskyldan flutti heim árið 2017. Nú starfar hann við Smitsjúkdómadeild Landspítala.
Agnar Bjarnason