Skip to main content

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Michael Micci

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Michael Micci - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
11. maí 2023 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 11. maí 2023 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Michael Micci doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Off the Map: Modes of Spatial Representation in the Indigenous Icelandic riddarasögur. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. (Smellið hér til að fylgjast með vörninni í streymi).

Andmælendur við vörnina verða John Lindow, prófessor emeritus við Kaliforníuháskólann í Berkeley, og Sverrir Jakobsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Aðalheiðar Guðmundsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Sif Ríkharðsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands og Massimiliano Bampi, prófessor við Ca' Foscari háskólann í Feneyjum.

Gauti Kristmannsson, deildarforseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Í doktorsritgerð sinni fjallar Michael um frumsamdar riddarasögur frá 14. öld með áherslu á frásagnarými sem birtist okkur með mismunandi hætti í þremur völdum verkum, Sigurðar sögu þögla, Ectors sögu og Nitida sögu. Sú fræðilega nálgun sem Michael beitir snýr að ferðalögum og lýsingu á staðháttum víða um heim. Þá leitast hann einnig við að varpa ljósi á þá spurningu hvort Vestur-Evrópubúar hafi deilt hugmyndum sínum um rými. Með því að greina þann sögulega grundvöll sem sögurnar spruttu úr leggur hann fram tilgátur um hlutverk sagnanna í menningarlegu samhengi.  Michael sýnir fram á hvernig íslenskir höfundar unnu með hin nýstárlegu sagnaform síðmiðalda og með hvaða hætti sögurnar bera vott um þátttöku þeirra í hinni litríku menningarflóru evrópskra síðmiðalda.

Um doktorsefnið

Michael Micci lauk BA-prófi í erlendum tungumálum og bókmenntum við Alma Mater Studiorum í Bologna og meistaraprófi í samanburðarbókmenntum frá sama skóla. Michael hóf doktorsnám sitt við Háskóla Íslands árið 2017. Hann starfar nú sem stundakennari í íslensku og íslenskum bókmenntum við Háskólann í Mílanó.

Michael Micci.

Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Michael Micci