Doktorsvörn í íslenskum bókmenntum: Guðrún Steinþórsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 24. janúar 2020 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Guðrún Steinþórsdóttir doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum sem nefnist „raunveruleiki hugans [er] ævintýri“ Um valdar sögur Vigdísar Grímsdóttur, einkenni þeirra og viðtökur. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.
Andmælendur við vörnina verða dr. Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og dr. Auður Aðalsteinsdóttir, ritstjóri hjá Háskólaútgáfunni.
Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Benedikt Hjartarson og dr. Guðni Elísson, prófessorar í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Torfi Tulinius, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnar athöfninni.
Um rannsóknina
Í ritgerðinni er fjallað um valdar skáldsögur Vigdísar Grímsdóttur í því skyni að varpa nýju ljósi á einkenni þeirra og viðtökur. Eftirtaldar sögur eru til umfjöllunar: Stúlkan í skóginum (1992), Þögnin (2000), trílógían Þrenningin (Frá ljósi til ljóss (2001), Hjarta, tungl og bláir fuglar (2002) og Þegar stjarna hrapar (2003)) og Dísusaga: Konan með gulu töskuna (2013). Margvíslegum aðferðum er beitt í ritgerðinni en við greiningu sagnanna er þó einkum leitað til hugrænna fræða (e. cognitive science). Rannsóknin sem unnin var, er tvískipt. Annars vegar er hún greining á sögunum þar sem meðal annars er skoðað ímyndunarafl og sköpunarhæfni persóna og hugað að einkaheimum þeirra, ímynduðum vinum, sársauka, sjálfsmyndum, sjálfsblekkingu, samlíðan og valdabaráttu auk þema eins og ást, í margvíslegum myndum, og þrár sem ekki sem ekki er unnt að uppfylla. Hins vegar felur rannsóknin í sér könnun með eigindlegum aðferðum á tilfinningaviðbrögðum og samlíðan raunverulegra lesenda andspænis persónum og aðstæðum í heilum skáldsögum Vigdísar eða stuttum textabrotum. Til dæmis er skoðað hvernig lesendur nýta ímyndunaraflið og sköpunarhæfnina þegar þeir fylla inn í eyður verkanna sem þeir lesa og búa sér til bakgrunnssögur um persónur og sögusvið, hversu vel þeim gengur að samsama sig persónum og eins hvernig þeim gengur að sökkva sér niður í söguheima verkanna.
Um doktorsefnið
Guðrún Steinþórsdóttir lauk B.A.-prófi í íslensku við Háskóla Íslands og meistaraprófi í íslenskum bókmenntum við sama skóla. Hún er stundakennari við Háskóla Íslands.
Guðrún Steinþórsdóttir.