Doktorsvörn í hagfræði - Fredrik Salenius
Askja
Stofa 132 og í streymi
Fimmtudaginn 10. júní kl. 15:00 næstkomandi mun Fredrik Salenius verja doktorsritgerð sína í hagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin ber heitið Ritgerðir um alþjóðlega fiskveiðistjórnun (Essays on International Fisheries Management). Vörnin er opin öllum og fer fram í Öskju, stofu 132 en henni verður einnig streymt.
Doktorsritgerðin er unnin undir leiðsögn dr. Ragnars Árnasonar, prófessor emeritus við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Brynhildur Davíðsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og dr. Marko Lindroos prófessor lektor og deildarforseti meistaranáms í Agriculcutral, Environmental and Rescource Economics við Háskólann í Helsinki.
Andmælendur við vörnina verða dr. Rögnvaldur Hannesson, prófessor emeritus við Norges Handelshøyskole og dr. James E. Wilen, prófessor emeritus Agricultural and Resource Economics, University of California, Davis.
Dr. Birgir Þór Runólfsson, deildarforseti Hagfræðideildar mun stýra athöfninni.
Hér er hlekkur á streymi.
Um doktorsefnið
Fredrik Salenius fæddist árið 1985 í Espoo í Finnlandi. Hann lauk MSc gráðu í umhverfishagfræði frá háskólanum í Helsinki árið 2014. Fredrik hóf doktorsnám við Hagfræðideild árið 2015 og var rannsókn hans hluti af GrennMAR verkefninu.
Ágrip
Samstjórn þjóðríkja á fiskveiðum úr fiskistofnum á alþjóðlegum hafsvæðum er nauðsynleg ef komast á hjá neikvæðum afleiðingum samkeppni um afla úr þeim stofnum sem þar er að finna — þ.e. afleiðinga sem oft eru kenndar við harmleik sameiginlegra náttúruauðlinda. Auk þess að takmarka sókn í einstakar tegundir þarf þessi samstjórn að taka tillit til samspils mismunandi tegunda í lífríki sjávarins. Í fyrsta hluta ritgerðarinnar er beitt lífhagfræðilegu líkani til að rannsaka ábatann af sameiginlegri margstofnastjórn þjóðríkja á veiðum úr uppsjávarstofnum í Norð-austur Atlantshafi. Ein af niðurstöðum rannsóknarinnar er að margstofnastjórn þessara fiskveiða geti aukið efnahagslegan arð af þessum fiskveiðum verulega, en aðeins ef jafnframt er um samstjórn þeirra að ræða.
Fiskveiðum úr sameiginlegum stofnum er oft stjórnað af samtökum viðkomandi fiskveiðiþjóða, svokölluðum svæðisbundnum fiskveiðisamtökum (Regional Fisheries Management Organizations). Annar hluti ritgerðarinnar rannsakar skilvirkni þessara svæðisbundnu fiskveiðisamtaka. Hlutfall fiskistofna á alþjóðlegum hafsvæðum sem teljast ofveiddir eða hrundir hefur vaxið undanfarna áratugi. Því vaknar spurning um hvort svæðisbundnu fiskveiðisamtökin hafi aukið sjálfbærni þessara stofna. Þessi hluti ritgerðarinnar nýtir sér alþjóðleg gagnasöfn til að útbúa viðamikið safn tímaraða- og þverskurðargagna um þróun stofnstærða fiskistofna sem svæðisbundin fiskveiðisamtök hafa stjórnað á tímabilinu 1950-2014. Niðurstöðurnar gefa til kynna að svæðisbundin fiskveiðisamtök kunna að hafa haft áhrif í þá átt að auka sjálfbærni, en áhrifin séu mjög breytileg frá einum slíkum samtökum til annarra.
Í þriðja hluta ritgerðarinnar er rannsakað hvort fjöldi þátttökuþjóða í alþjóðlegum fiskveiðum hafi áhrif á líffræðilega og efnahagslega útkomu veiðanna. Fræðileg niðurstaða í fiskihagfræði er að fjölgun sjálfstæðra þátttökuþjóða í fiskveiðunum auki líkurnar á ofveiði. Í þessum hluta eru dregin saman tímaraða– og þverskurðargögn um fjölda veiðiþjóða og stofnstærðir 1300 fiskistofna á alþjóðlegum hafsvæðum. Þessi gögn og mismunandi hagmælingalíkön styðja hina fræðilega niðurstöðu, þá niðurstöðu að aukinn fjöldi veiðiþjóða auki líkurnar á ofveiði.
Fredrik Salenius