Skip to main content

Doktorsvörn í hagfræði - Alvin Slewion Jueseah

Doktorsvörn í hagfræði - Alvin Slewion Jueseah - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
18. ágúst 2022 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 18. ágúst ver Alvin Slewion Jueseah doktorsverkefni sitt í hagfræði Hagræn greining á strandveiðum í Líberíu (Economic Analysis of the Coastal Fisheries of Liberia).

Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 14:00 og er öllum opin.

Leiðbeinandi verkefnisins er dr. Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild. Auk hans sitja í doktorsnefnd dr. Ögmundur Knútsson forstjóri Fiskistofu og dr. Tumi Tómasson sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.

Andmælendur eru dr. Jingjie Chu sérfræðingur við Alþjóðabankann og dr. Ian G. Cowx prófessor við University of Hull.

Vörninni stýrir dr. Birgir Þór Runólfsson deildarforseti Hagfræðideildar.

Vörninni verður steymt: https://livestream.com/hi/doktorsvornalvinslewionjueseah

Um doktorsefnið

Alvin Slewion Jueseah útskrifaðist frá háskólanum í Líberíu með BS gráðu í hagfræði árið 2009. Alvin hóf framhaldsnám (meistaranám) í sjávarútvegs- og fiskeldisstjórnun og hagfræði innan NOMA-FAME námsins , sameiginlegt meistaranám á vegum háskólans í Tromso í Noregi og Nha Trang háskólans í Víetnam. Alvin lauk meistaranámi í sjávarútvegs- og fiskeldisstjórnun og hagfræði árið 2012 og lauk MSc. gráðu frá Norwegian College of Fisheries Science, University of Tromsø. Alvin hóf doktorsnám við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands í nóvember 2016.

Ágrip

Á tíma borgarastyrjaldarinnar sem hófst árið 1989 ríkti algjört stjórnleysi í sjávarútvegi í Líberíu og veiðarnar voru að mestu ólögmætar því skráningu afla var mjög ábótavant. Eftir lok átakanna árið 2003 hafa stjórnvöld lagt áherslu á umbætur á stjórnarháttum og árið 2010 var ráðist í miklar stefnubreytingar þar sem einungis smábátaveiðar voru leyfðar innan sex mílna. Í þremur ritrýndum greinum og einni hvítbók í þessari ritgerð er þróun sjávarútvegs í Líberíu skoðuð í ljósi stefnubreytinganna 2010. Áhersla er lögð á ástand veiðistofna, þróun, tæknilega skilvirkni, framleiðni og arðsemi strandveiðiflotans, sem og virðiskeðju fiskveiða.

Stefnubreytingarnar á árinu 2010 hafa skilað árangri til að ná ákveðnum markmiðum sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna númer 14 (þ.e. stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu auðlinda sjávar) og markmið 14.4 og 14B hvað varðar endurheimt og uppbyggingu nytjastofna og að tryggja aðgengi smábátaveiða að þeim. Ávinningur smábátaútgerðar hefur aukist á kostnað stærri útgerða sem endurspeglast í þróun strandveiðiflota í Líberíu.

Stefnubreytingin 2010 hefur hins vegar verið á kostnað hagkvæmni í sjávarútvegi í Líberíu. Kru og Fanti bátum hefur að meðaltali fjölgað um það bil 9-falt en dregið hefur úr útgerð stærri skipa til veiða á landgrunninu. Þróun strandveiðiflotans hefur að mestu verið hagnaðardrifin. Að undanskildum botnfisktegundum á grunnsævi, ofan hitaskila, virðast helstu nytjastofnar vera vannýttir. Þessa þróun má að miklu leyti rekja til stefnubreytinganna í sjávarútvegi sem voru innleiddar árið 2010.

Á tíma borgarastyrjaldarinnar var takmörkuð fjárfesting í nýrri veiðitækni. Þetta leiddi til óhagræðis í smábátaútgerð þó bátarnir séu að meðaltali arðbærir. Virðiskeðja afla einkennist af lítilli eða engri virðisaukandi þjónustu og skorti á gagnsæi sem stafar af valdaójafnvægi og skorti á upplýsingaflæði í virðiskeðjunni. Niðurstöður tilviksrannsókna sem kynntar eru í þessari ritgerð mæla með því að stjórnvöld í Líberíu ráðist í stefnumótun sem miði að því að bæta afkomu í sjávarútvegi, jafnt í veiðum sem í vinnslu.

 

Alvin Slewion Jueseah

Doktorsvörn í hagfræði - Alvin Slewion Jueseah