Skip to main content

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Doktorsvörn á Menntavísindasviði - Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
1. febrúar 2019 13:00 til 16:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur Háskóla Íslands

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Frá Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands:

Starfsþróun leikskólakennara í gegnum samstarfsrannsókn: Að skapa sameiginlegan skilning og fagmál um gildi og gildamenntun

Andmælendur eru dr. Margaret Riel, forstöðumaður Center for Collaborative Action Research, Pepperdine University, Malibu, Bandaríkjunum, og dr. Liora Bresler, prófessor við University of Illinois.

Leiðbeinandi var dr.  Jóhanna Einarsdóttir, prófessor á Menntavísindasviði, og  og meðleiðbeinandi dr. Pia Williams, prófessor við Háskólann í Gautaborg, Svíþjóð.

Auk þeirra sat í doktorsnefnd dr. Anna-Maija Puroila, dósent við Háskólann í Oulu, Finnlandi.

Dr. Jónína Vala Kristinsdóttir, prófessor og forseti Deildar kennslu- og menntunarfræði Menntavísindasviðs, stjórnar athöfninni.                     

Rannsóknin var samstarfsrannsókn (e. collaborative action research) og stóð gagnaöflun yfir í tvö ár. Meginmarkmiðið var að skapa nýja þekkingu á þeim gildum sem leikskólamenntun byggir á. Einnig var markmiðið að skapa þekkingu á aðferðafræði starfendarannsókna. Höfundur vann með sjö leikskólakennurum í einum leikskóla, sem lögðu áherslu á eigin starfsþróun í tengslum við verkefnið. Meginrannsóknarspurningin var þessi: Hvernig getur samstarfsrannsókn stutt við starfsþróun leikskólakennara? Doktorsritgerðin samanstendur af fjórum greinum sem hafa verið birtar, sem þrjár tímaritsgreinar og bókarkafli. Í fyrstu greininni er fjallað um þau  lífsgildi sem leikskólakennurum fannst mikilvægt að kenna börnum í leikskólanum og hvers vegna þau gildi þóttu mikilvæg. Einnig er fjallað um hvaða augum leikskólakennararnir litu eigið hlutverk við miðlun þeirra gilda. Í annarri greininni er fjallað um það hvernig leikskólakennararnir miðluðu þeim gildum sem þeim þóttu mikilvægust. Þriðja greinin varpar ljósi á hvernig leikskólakennararnir þróuðu sig faglega með þátttöku sinni í samstarfsrannsókninni og einnig hvernig þeir upplifðu kosti þess og galla að taka þátt. Loks var í fjórðu greininni rýnt í hvernig hlutverk rannsakanda mótaðist meðan á rannsóknarferlinu stóð.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að aðferðafræði samstarfsrannsókna reyndist hafa rík áhrif á starfsþróun leikskólakennaranna þegar þeir unnu með gildi. Leikskólakennararnir völdu að leggja áherslu á gildi sem þeir tengdu við félagsfærni og sömuleiðis fannst þeim mikilvægt að börnin yrðu félagslega sterkir einstaklingar. 

Ingibjörg Ósk útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2002 frá Háskóla Íslands. Hún lauk einnig meistaraprófi í menntunarfræði árið 2010 frá sama skóla. Ingibjörg starfaði sem leiðbeinandi í leikskólum með grunnnáminu og sem leikskólakennari að því loknu, allt þar til hún hóf meistaranám árið 2007. Ingibjörg hefur tekið þátt í ýmsum rannsóknarverkefnum sem tengjast leikskólastarfi, einkum á vegum Rannsóknarstofu í menntunarfræði ungra barna (RannUng). Í doktorsnámi sínu hefur Ingibjörg verið hluti af Norrænum rannsóknarhópi sem rannsakaði gildi í norrænu leikskólastarfi. Einnig var Ingibjörg gestastúdent við Gautaborgarháskóla fyrstu tvö árin af doktorsnáminu. Ingibjörg starfar nú sem aðjunkt við Menntavísindasvið og kennir leikskólakennaranemum. Hún situr einnig í stjórn RannUng.
Ingibjörg Ósk fæddist á Hornafirði árið 1974 en býr nú í Reykjavík. Hún er gift Halldóri Steinari Sigurðssyni véliðnfræðingi og eiga þau þrjá syni, Sigurð Bjarma, Tómas Orra og Steinar Kára.

Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir ver doktorsritgerð sína í menntavísindum við Deild kennslu- og menntunarfræði, Háskóla Íslands

Doktorsvörn á Menntavísindasvið - Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir