Anna Guðrún fyrsti heiðursdoktor Stjórnmálafræðideildar
Dr. Anna Guðrún Jónasdóttir, prófessor í stjórnmála- og kynjafræði við Háskólann í Örebro í Svíþjóð, hlaut í gær heiðursdoktorsnafnbót við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hún er fyrsti heiðursdoktorinn við deildina og sannkallaður brautryðjandi í kynjafræði.
Anna Guðrún tók við heiðursdoktorsnafnbótinni við athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands sem haldin var í tengslum við ráðstefnuna „Vald og lýðræði á Íslandi - 100 árum síðar“. Efnt var til ráðstefnunnar til þess að minnast þess að 100 ár eru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt en að ráðstefnunni stóðu fjölmargir aðilar innar Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.
Anna Guðrún hefur allan sinn fræðimannsferil starfað í Svíþjóð en þangað sótti hún menntun sína. Hún var fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsgráðu í stjórnmálafræði þegar hún útskrifaðist frá Gautaborgarháskóla árið 1991. Doktorsritgerð hennar bar titilinn „Love Power and Political Interests. Towards a Theory of Patriarchy in contemporary Western Societies“.
Anna Guðrún var jafnframt fyrst íslenskra kvenna til þess að gegna stöðu dósents í stjórnmálafræði og prófessorsembætti í kynjafræði. Hún er mikilvirkur fræðimaður og meðal þekktustu stjórnmála- og kynjafræðinga á Norðurlöndum en rannsóknarsvið hennar ná til stjórnmálafræði, félagsfræði, hagsögu, sálfræði og kynjafræði og eru merkustu rannsóknir hennar á sviði valds og kynjatengsla.
Anna Guðrún er enn fremur frumkvöðull í því að samþætta stjórnmálafræði og kynjafræði. Það hefur hún gert með því að byggja á arfleifð hefðbundinnar stjórnmálafræði og í senn víkka út mörk hennar. Fjöldi bóka og greina liggur eftir Önnu Guðrúnu og hefur hún leitt fjölmörg rannsóknarverkefni, bæði í Svíþjóð og á alþjóðavettvangi.
Að lokinni afhendingu heiðursdoktorsnafnbótar á ráðstefnunni í gær flutti Anna Guðrún
erindi um rannsóknir sínar og fræðistörf undir yfirskriftinni „From Iceland to International Love Studies“.