Sprettur hlýtur tvo styrki til að styðja við nemendur með erlendan bakgrunn

Sprettur, nýsköpunarverkefni við Háskóla Íslands, hefur hlotið tvo veglega styrki til verkefna sem miða að því að efla þátttöku, íslenskukunnáttu og tengslanet nemenda með erlendan bakgrunn við skólann.
Annari styrkurinn, að upphæð 5 milljónir króna úr Þróunarsjóði innflytjendamála í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu, er til verkefnisins „Cultivating an Ecology of Belonging at the University of Iceland“ sem gæti útlistast sem að rækta menningu inngildingar við Háskóla Íslands.
Verkefnið byggist á þróun og innleiðingu mentorakerfis þar sem háskólanemar á meistarastigi verða þjálfaðir til að veita nemendum með erlendan bakgrunn fræðilegan og félagslegan stuðning. Markmið þess er að skapa lærdómssamfélag þar sem fjölbreyttur bakgrunnur nemenda er virtur og nýttur sem styrkur með áherslu á námsframvindu, íslenskukunnáttu og félagslega þátttöku. Verkefnið hefst í janúar 2026 og stendur til júní 2027 og er unnið í samstarfi við Ritver HÍ og Nemendaráðgjöf HÍ.
Hinn styrkinn, að upphæð 9,5 milljónir króna, veitir mennta- og barnamálaráðuneytið til verkefnisins „Inngildingarbrú milli háskólans og vinnumarkaðar“. Markmið þess er að efla samstarf milli HÍ (Spretts og Nemendaráðgjafar HÍ) og Vinnumálastofnunar með það fyrir augum að stuðla að inngildingu innflytjenda í menntun og atvinnulífi. Verkefnið hefst í janúar 2026 og stendur til október 2027.
Markmið verkefnanna er að byggja upp sjálfbært lærdómssamfélag sem tengir háskólanema við atvinnulíf og styður fullorðna innflytjendur við að hefja háskólanám. Með þessu skapast lifandi vettvangur sem styrkir bæði íslenska nema, nema með erlendan bakgrunn og innflytjendur. Auk þess stuðla verkefnin að faglegri þátttöku, aukinni íslenskukunnáttu og gagnkvæmri aðlögun að íslensku samfélagi til framtíðar.
