Vilja vernda frjálslynt lýðræði gegn árásum eftirsannleikans

„Það þarf að sýna meiri seiglu að í verja einn helsta hornstein frjálslyndra lýðræðisríkja – almannarýmið – þar sem fólk hefur aðgang að áreiðanlegum upplýsingum og getur átt málefnalega umræðu á grundvelli virðingar, heiðarleika og staðreynda”, segir Maximilian Conrad, prófessor í stjórnmálafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Hann stýrir rannsóknarverkefninu RECLAIM, þriggja ára verkefni sem nú er að ljúka en markmið þess hefur verið að rannsaka áhrif stjórnmála eftirsannleikans (e. post-truth politics) á lýðræði í Evrópu og víðar. Meðal fjölbreyttra afurða verkefnisins má nefna stefnumótandi greiningar, hlaðvörp, verkfærakassa, fræðslumyndbönd og fræðigreinar sem varpa ljósi á þær ógnir sem steðja að frjálslyndum lýðræðisríkjum. Verkefnið bendir jafnframt á leiðir sem samfélög geta farið til að sporna gegn þeim ógnum sem beinast að lýðræðinu.
Möguleg tilvistarleg ógn við lýðræðið
„Verkefnið er viðbragð við þróun sem hefur verið sýnileg í meira en áratug og greina mátti í aðdraganda Brexit-kosninganna í Bretlandi og í fyrstu kosningabaráttu Donalds Trump til embættis forseta Bandaríkjanna. Þróunin í umræðu um stjórnmál á þessum tíma bentu til breyttrar nálgunar í pólítískri umræðu um stöðu sannleikans og afstöðu til staðreynda í upplýsingum til kjósenda. Á þessum tíma mátti greina breytingu í þá átt leyfilegt væri að breiða út skoðun meðal almennings, jafnvel á grundvelli fullyrðinga sem augljóslega voru rangar,” segir Maximilian spurður um tilurð verkefnisins.

Maximilian Conrad, prófessor í stjórnmálafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. MYND/Kristinn Ingvarsson
Markmið Maximilians og samstarfsfólks í RECLAIM-verkefninu var því að kanna hvaða þýðingu þessi umskipti í stjórnmálalegri umræðu gætu haft fyrir frjáls og opin lýðræðisríki.. „Á grundvelli niðurstaðna úr verkefni sem við unnum áður og sneri að áhrifum eftirsannleikans á Evrópusamrunann ákváðum við að nálgast verkefnið út frá mun breiðara sjónarhorni og greina stjórnmál eftirsannleikans sem áskorun og mögulega jafnvel sem tilvistarlega ógn við frjálslynt lýðræði,“ segir Maximilian.
Í upphafi verkefnisins, segir Maximilian, hafi margt fólk dregið í efa að stjórnmál eftirsannleikans væru raunverulegt vandamál. „En við sjáum það betur og betur að þetta er sannarlega tilvistarleg ógn við frjálslynt lýðræði. Nýlegir atburðir í Bandaríkjunum eru kennslubókardæmi um hvernig hægt er að afnema frjálslynt lýðræði og það væri kjánalegt af okkur að halda að þetta geti ekki gerst í Evrópu.“
Gervigreindin kemur til sögunnar
Að RECLAIM-verkefninu kom fjölbreyttur hópur fræðimanna frá þrettán háskólum, rannsóknastofnunum og hugveitum í Evrópu en Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hélt utan um verkefnið. „Að verkefninu komu sérfræðingar á sviði stjórnmálafræðikenninga, félagsfræðingar og fræðimenn á sviði fjölmiðla- og samskiptafræði. Verkefnið er þverfræðilegt,” segir Maximilian.

Fjölbreyttur hópur fræðafólks frá fjölmörgum Evrópulöndum hefur komið að RECLAIM-verkefninu. MYND/Elza Löw og TEPSA (Trans European Policy Studies Association)
Spurður að því hvort rannsóknarverkefnið hafi tekið einhverjum breytingum á þeim þremur árum sem það stóð yfir bendir Maximilian á tilkomu og áhrif gervigreindar á dreifingu falskra upplýsinga. „Þegar við hófum verkefnið litum við á samfélagsmiðla sem meginvettvang fyrir dreifingu falskra upplýsinga en nú hefur gervigreind orðið sífellt stærra viðfangsefni. Samfélagsmiðlar gegna enn hlutverki sem mikilvægur dreifandi falsupplýsinga en með tilkomu gervigreindar er orðið auðveldara en nokkru sinni fyrr að búa til falsupplýsingar sem virðast ósviknar,“ segir Maximilian.
Hvernig styðjum við borgara í upplýsingaumhverfi sem sífellt meira er ráðskast með?
Hvernig eigum við að bregðast við þessu ástandi og hvernig styrkjum við samfélagsumræðuna? Einhver svör við þessum spurningum má finna í fjölda niðurstaðna og afurða RECLAIM-verkefnisins sem samanstanda m.a. af stefnumótandi greiningum, skýrslum, bókum, hlaðvörpum og fræðslumyndböndum sem öll eru í opnum aðgangi fyrir stefnumótendur og almenning.
Sérfræðingar innan RECLAIM-verkefnisins unnu samtals sex stefnumótandi greiningar með afmörkuðum tillögum fyrir stefnumótendur. Ein þeirra gerir ráð fyrir að valdefla Evrópubúa með betri áætlunum um borgaramenntun og miðlalæsi. Fólk þarf að geta betur greint staðreyndir frá tilbúningi á samfélagsmiðlum eða minnsta kosti vera meðvitað um hættuna á að rekast á falsupplýsingar á samfélagsmiðlum. „Þetta snýst ekki bara um villandi og rangar upplýsingar. Þetta snýst jafnframt um að fólk, ungt sem eldra, læri að meta hlutverk blaðamennsku í frjálslyndum lýðræðisríkjum. Fólk þarf að átta sig að gæðablaðamennska – ef hún er stunduð á réttan hátt – færir kjósendum og framtíðarkjósendum áreiðanlegri upplýsingar og það sem er enn mikilvægara, tilfinningu fyrir því hvers vegna hágæða blaðamennska er mikilvæg. Við þurfum að komast á þann stað að fólk skilji hvað góð blaðamennska er, hvaða þýðingu hún hefur og hlutverki hún gegnir og hvers vegna hún færir okkur samhengi sem við finnum ekki endilega á samfélagsmiðlum. Þessi skilningur mun skipta höfuðmáli við að endurreisa traust milli meginstraumsfjölmiðla og almennings,“ bendir Maximilian á.
Maximilian og samstarfsfólk hans benda einnig á að það þurfi meiri samræmingu og eftirfylgni við það námsefni sem tengist borgaramenntun í Evrópulöndum. Þrátt fyrir að stefnumörkun í menntamálum fari mest fram innan þjóðríkja geti Evrópusambandið gegnt mikilvægu samræmingarhlutverki. Sambandið fylgist nú þegar með og greini það hvernig menntakerfi einstakra landa standa í ýmsu tilliti, bæði hjá aðildarlöndum og þeim sem standa utan sambandsins, eins og Íslandi. „Þessi úrræði ætti algjörlega að nýta til að greina hvernig menntakerfi á landsvísu og innan einstakra landsvæða búa borgara undir upplýsingaumhverfi sem sífellt meira er ráðskast með.“

„Við köllum eftir nýju stjórnarfyrirkomulagi fyrir fyrirtæki sem reka samfélags- og stafræna miðla,“ segir Maximilian. MYND/Unsplash/Adem Ay
Evrópulönd þurfa ekki að láta eftir öllum kröfum samfélagsmiðlafyrirtækja
Rannsóknarhópurinn leggur einnig til að komið verði á regluverki fyrir samfélagsmiðla. „Við köllum eftir nýju stjórnarfyrirkomulagi fyrir fyrirtæki sem reka samfélags- og stafræna miðla. Evrópusambandið hefur umtalsverð völd til ákvarða starfsskilyrði fyrirtækja sem reka samfélagsmiðla á innri markaði sambandsins og því þarf það alls ekki að láta eftir kröfum fólks eins og Elons Musk, Marks Zuckerberg eða Jeffs Bezos. Það eru 500 milljónir á innri markaðnum og því hefur það sannarlega afl til til ákvarða hvað samfélagsmiðlafyrirtæki mega gera og hvað ekki, óháð fáránlegum fullyrðingum Elons Musk um „tjáningarfrelsi í Evrópu“. Þetta felur líka í sér spurningar um gagnsæi algóritma, þ.e. skilning á því hvernig þeir virka og hvernig upplýsingar eru valdar fyrir notendur á mismunandi samfélagsmiðlum. Maximilian bendir einnig á að stofna ætti samfélagsmiðlanefndir, sambærilegar við fjölmiðlanefndir sem finna má í mörgum löndum, sem leið til sjálfsstjórnar.
Vernda þarf gæðablaðamennsku
Þriðja lykiltillagan sem rannsóknarhópurinn setur fram er að vernda gæðablaðamennsku og styðja fjárhagslega við fjölmiðla sem hafa slíkt í heiðri. „Gæðablaðamennska á í krísu og það tengist grundvelli viðskiptamódelsins sem að miklu leyti má rekja til þess að gæðafjölmiðar verða að keppa við samfélagsmiðla. Einkareknir gæðafjölmiðlar eru einnig í krísu því tekjur þeirra skreppa saman vegna þess að fólk leitar í auknum mæli upplýsinga á samfélagsmiðlum. Svo er það spurningin um eignarhaldið, sem er mikilvægt að hafa í huga þegar horft er til minnkandi trausts gagnvart meginstraumsfjölmiðlum. Sjálfstæði gæðadagblaða – og fjölhyggju fjölmiðla sem slíkri – er ógnað þegar sífellt fleiri miðlar eru í eigu örfárra stórra fjölmiðlasamsteypa,“ segir Maximilian.
Við þetta vakna spurningar um hvernig eigi að styðja við gæðablaðamennsku. „Í einni af stefnumótandi greiningum okkar er lagt til að borgarar fái hver og einn ákveðna upphæð sem þeir geta varið í gæðafjölmiðla. Þetta vekur upp margar spurningar í framhaldinu en þetta gæti verið ein leið til að tryggja efnahagslega grundvöll fyrir fjölbreytta fjölmiðla,“ segir Maximilian.
„Fyrir fólk á okkar aldri eru fjölmiðlar í almannaþjónustu enn hin hefðbundna fréttaveita. Það er enn mjög eðlilegt að horfa á kvöldfréttir RÚV. Það á hins vegar ekki við hjá yngri kynslóðum, þar á meðal hjá mörgum nemenda minna, jafnvel á meistarastigi. Við þurfum að fylgjast mun betur með því hvernig fjölmiðlaneysla er að breytast og hvaða áhrif það hefur, sérstaklega í samfélögum þar sem mikið traust ríkir, eins og á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Maximilian. MYND/Elza Löw og TEPSA (Trans European Policy Studies Association)

Popúlískir stjórnmálamenn ráðast á blaðamenn
Maximilian undirstrikar að við stöndum á ákveðnum tímamótum þegar kemur að stöðu gæðamiðla í Evrópu. Traust gagnvart fjölmiðlum er að breytast og blaðamennska virðist ekki hafa sama orðspor og áður. „Að einhverju leyti kallar þetta á að gagnrýna sjálfsskoðun hjá blaðamennskunni sem stofnun. Uppfyllir blaðamennska enn sín eigin viðmið, sem augljóslega þurfa að endurspeglast í væntingum fólks gagnvart stofnuninni?“ spyr Maximilian.
Það skipti einnig miklu máli í þessu tilliti að meginstraumsfjölmiðlar glími við gagnrýni frá hinu pólitíska sviði þar sem réttmæti þeirra sé dregið í efa af miklum ákafa. „Popúlískir stjórnmálamenn – stjórnmálamenn sem standa utan hins pólitíska meginstraums – ráðast viljandi á blaðamenn og fullyrða að þeir séu allir hluti af spilltri, frjálslyndri elítu sem sé ekki í tengslum við raunveruleika venjulegs fólks. Það er gríðarlega mikilvægt að viðurkenna og átta sig á hvernig slík orðræða er notuð sem tæki til að grafa með virkum hætti úr trúverðugleika meginstraumsblaðamennsku.“
Þegar horft er til fjölmiðlaneyslu þá bendir Maximilian á að við þurfum jafnframt að taka tillit til kynslóðasjónarmiða. „Fyrir fólk á okkar aldri eru fjölmiðlar í almannaþjónustu enn hin hefðbundna fréttaveita. Það er enn mjög eðlilegt að horfa á kvöldfréttir RÚV. Það á hins vegar ekki við hjá yngri kynslóðum, þar á meðal hjá mörgum nemenda minna, jafnvel á meistarastigi. Við þurfum að fylgjast mun betur með því hvernig fjölmiðlaneysla er að breytast og hvaða áhrif það hefur, sérstaklega í samfélögum þar sem mikið traust ríkir, eins og á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum,“ segir Maximilian.
Í enn annarri stefnumótandi greiningu innan verkefnisins skoðuðu Maximilian og samstarfsfólk „vopnvæðingu“ falsupplýsinga á vegum ytri aðila aðila í Evrópu. „Þetta á sér ekki bara stað innan landamæra. Einræðisstjórnir nýta falsupplýsingaherferðir með virkum hætti til að hafa áhrif á kosningar og grafa undan frjálslyndum lýðræðisríkjum. Þetta leiðir hugann að öryggisþætti stjórnmála eftirsannleikans og verkefnið skiptir einnig máli í því tilliti,“ segir hann.
Traust á meginstraumsfjölmiðlum minnkar ekki alls staðar í Evrópu
Spurður hvort einhverjar niðurstöður í verkefninu hafi komið honum á óvart bendir Maximilian á að traust á meginstraumsfjölmiðlum og fjölmiðlum í almannaþjónustu sé ekki að minnka eins mikið og fólk geri oft ráð fyrir. „Ef horft er yfir langan tíma er það smám saman að minnka og miðlanotkun fólks er einnig að breytast þar sem samfélagsmiðlar eru að verða mikilvægt uppspretta upplýsinga. Það á hins vegar ekki við alls staðar,“ segir Maximilian og heldur áfram: „Á Norðurlöndum og á Írlandi og í Hollandi er traust á fjölmiðlum að breytast en ekki eins afgerandi og margir halda. Á öðrum stöðum er traust fólks á fjölmiðlum nánast ekkert og jafnvel almennt á fréttum, sérstaklega í Suður- og Suðaustur-Evrópu.“

Frá ráðstefnu RECLAIM í Veröld - húsi Vigdísar árið 2022. MYND/Kristinn Ingvarsson
Mjög metnaðarfullar áætlanir um borgaramenntun í sumum löndum
Annað sem kom á óvart að sögn Maximilians var að sum lönd búa nú þegar yfir mjög metnaðarfullum áætlunum um borgaramenntun. „Greining okkar á kennsluefni í borgaramenntun í mismunandi löndum sýndi að það eru dæmi um lönd þar sem mikilvæg viðfangsefni tengd miðlalæsi og gagnrýninni hugsun gegna mikilvægu hlutverki,“ segir Maximilian.
Í Bæjaralandi í Þýslandi er það til dæmis tekið skýrt fram hvaða markmiðum á að ná á hverju stigi og með hvaða leiðum. „Það er alhliða rammi um hvert markmiðið á að vera með borgaramenntun – hvernig ungt fólk á að þroskast í virka þátttakendur í lýðræðinu. Hluti af því snýst um að leggja mikla áherslu á miðlalæsi á öllum skólastigum og á öllum aldri og það er byrjað snemma. Þannig kynnast krakkar fjölmiðlum og hvernig þeir starfa en þau þurfa jafnframt að velta fyrir sér þeim upplýsingaveitum sem þau nota sjálf og fjölmiðlaneyslu. Þessi gagnrýna sjálfsskoðun er ótrúlega mikilvæg,“ bendir Maximilian á.
Hér eru á ferðinni starfshættir sem Íslendingar gætu lært af. „Íslensk námsskrá hefur breyst umtalsvert og í henni er að finna mikilvæg markmið tengd borgaramenntun. Börn eiga að öðlast stafræna færni og gagnrýna hugsun. En þegar kemur að því að tilgreina hvernig þessum markmiðum skal náð gæti og ætti að vera skýrari stefnumörkum, líka með tilliti til þess að meta að hve miklu leyti þessum markmiðum er í raun náð,“ segir Maximilian
Meira í húfi en staðreyndirnar sjálfar
Þrátt fyrir að Evrópa standi frammi fyrir miklum áskorunum í baráttunni við upplýsingaóreiðu og uppgang eftirsannleikans er útlitið ekki bara svart, að sögn Maximilians. „Góðu fréttirnar eru þær að við erum að vakna til vitundar um þennan nýja veruleika. Þegar kemur að borgaramenntun er meðvitund um að auka þarf mikið áherslu á miðlalæsi og sérstaklega læsi á stafræna miðla.“

„Við þurfum að vera meðvituð um grundvallargildi almannarýmisins sem sameiginlegs vettvangs til samskipta þar sem við getum borið fram rök okkar og greitt úr ágreiningi ólík sjónarmið. Til þess að geta gert það þurfum við aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum,“ segir Maximilian. MYND/Kristinn Ingvarsson
Hann undirstrikar enn fremur að fólk sé að átta sig á því að verkefnið fram undan snúist um meira en að koma auga á villandi og falskar upplýsingar og að þörf sé á yfirgripsmeiri stefnumörkun til að verja frjálslynt lýðræði. „Það er skýr þörf á að leggja aftur áherslu á lýðræðisleg gildi og dyggðir eins og gagnkvæma virðingu og umburðarlyndi ganvart ólíkum hópum og heimssýn þeirra. Lýðræði snýst augljóslega um meira en kosningar. Lýðræði krefst rökræða á hverjum degi og þær þurfa að fara fram af háttvísi og þvert á hugmyndafræðilegan ágreining. Þrátt fyrir að það séu vísbendingar um vaxandi skautun eru góðu fréttirnar þær að það er einnig vaxandi vitund um það að það er fleira í húfi en bara staðreyndirnar einar og sér.“
Nokkrar af lykilniðurstöðunum birtar á næstunni
Þrátt fyrir að RECLAIM-verkefninu hafi formlega lokið í september 2025 bíður Maximilian og samstarfsfólks hans enn mikil vinna við að greina þau gögn sem þau hafa safnað. „Við skiluðum öllu því sem hægt var að afhenda við lok verkefnisins og stór hluti afurða verkefnisins er sem stendur í ritrýni og undirbúningi fyrir útgáfu hjá útgefendum. Nokkur lykilverka okkar hafa því ekki verið birt enn, þar á meðal samantekt verkefnisins sem verður birt í vor. Um leið hefur verkefnið vakið margar nýjar spurningar,“ bendir Maximilian á.
Það er mikið í húfi fyrir frjálslynd lýðræðisríki að geta varðveitt almannarýmið. „Við þurfum að vera meðvituð um grundvallargildi almannarýmisins sem sameiginlegs vettvangs til samskipta þar sem við getum borið fram rök okkar og greitt úr ágreiningi. Til þess að geta gert það þurfum við aðgengi að áreiðanlegum upplýsingum. Þetta felur í sér að þörf er á gæðablaðamennsku sem reiðir bæði fram upplýsingar og samhengi þeirra en varpar einnig fram skoðunum og sjónarhornum. Sem borgarar þurfum við að sýna hvert öðru virðingu og vera reiðubúin að skiptast á skoðunum – ekki síst við þau sem við erum ósammála,“ segir hann að endingu.
Kynntu þér RECLAIM-verkefnið og afurðir þess á vef verkefnisins.
