Geðheilsan á breiðum grunni á Geðveikum dögum í HÍ

Ótal þættir sem tengjast geðheilsu á breiðum grunni verða til umfjöllunar á Geðveikum dögum sem fara fram í Háskóla Íslands 2.-5. febrúar. Boðið verður upp á meðal annars kynningar, fyrirlestra og hugleiðslu fyrir nemendur skólans og önnur áhugasöm.
Að Geðveikum dögum standa sálfræðingar Nemendaráðgjafar Háskóla Íslands í samvinnu Stúdentaráð skólans og er þetta í annað sinn sem dagarnir eru haldnir. Markmið þeirra er að efla umræðu um geðheilbrigðismál innan skólans og benda stúdentum á bjargir sem standa þeim til boða þegar kemur að geðheilsu.
Geðveikir dagar hefjast mánudaginn 2. febrúar þegar boðið verður upp á kynningar í hádeginu á Háskólatorgi. Þar geta nemendur spjallað við fulltrúa nemendaráðgjafar HÍ, Sálfræðiráðgjöf háskólanema, Einhuga – hópa fyrir háskólanemendur á einhverfurófi, Bergsins Headspace, Píeta og Geðhjálpar um hvaðeina sem viðkemur geðheilsu og stuðningi vegna andlegra áskorana.
Daginn eftir, þriðjudaginn 3. febrúar, stendur Stúdentaráð fyrir pallborði um geðheilbrigðismál á torginu með þátttöku Ölmu Möller heilbrigðisráðherra, Péturs Maack, formanns Sálfræðingafélag Íslands, Grétars Björnssonar, stjórnarmanns í Hugarafli, og Eiríks Kúld, fulltrúa stúdenta. Þar verður rætt um stöðu og stefnu geðheilbrigðismála fyrir stúdenta og ungt fólk og ýmsa þætti geðheilbrigðiskerfisins.
Miðvikudagurinn 4. febrúar hefst svo á hugleiðslu kl. 10 á Litla Torgi undir handleiðslu José M. Tirado, forsprakka Hugleiðsluhóps Háskóla Íslands. Á sama stað kl. 11.30 fjallar Erla Björnsdóttir, svefnsérfræðingur og stofnandi Betri svefns, um hvernig skammdegið og klukkan á Íslandi hafa áhrif á líkamsklukkuna, svefn og líðan og veitir hagnýt ráð til að bæta svefn og líða betur í myrkrinu.
Dagskráin heldur áfram á Litla Torgi í hádeginu þennan dag því kl. 12 flytur Tómas Kristjánsson, lektor við Sálfræðideild, erindið „Má bara ræða þetta? - Er umræða um sjálfsvíg skaðleg eða hættuleg?“ Þar hyggst hann fjalla um hvernig getum við notað vísindi til þess að leiða umræðuna á þann stað að hún geti stutt og hjálpað þeim sem glíma við sjálfsvígshugsanir. Þar á eftir, kl. 12.30, mun Unnur Jakobsdóttir Smári, sálfræðingur og doktorsnemi við HÍ, svo flytja erindi um áhrif hormónasveiflna á einkenni ADHD hjá konum.
Hreyfing, næring og samskipti kynjanna verða í brennidepli á fimmtudaginn 5. febrúar og sem fyrr verður Litla Torg vettvangur viðburðanna. Klukkan 11.30 mun Ingunn Erla Ingvarsdóttir, klínískur næringarfræðingur, fara yfir það hvernig hægt sé að næra sig og efla heilsu á heilbrigðan hátt. Í kjölfar hennar, kl. 12, kemur Einar Hansberg Árnason, íþróttafræðingur og þjálfari, og fjallar um mikilvægi hreyfingar í tengslum við geðheilbrigði.
Þar á eftir, kl. 12.30, mun kynfræðingurinn Áslaug Kristjánsdóttir flytja erindið „Að byrja saman 101“. Þar verður farið yfir leiðir til að hefja samband, hvað gerist í líkamanum þegar fólk byrjar saman og tilfinningar og hugsanir sem takast þar á. Þá verður rætt um frammistöðukvíða, höfnun og hjálpleg ráð tengd samböndum.
Viðburðir Geðveikra daga eru öllum opnir.
