Greining á myndrænu efni og skreytingum í íslenskum pappírshandritum

Út er komin bókin Skrifarar sem skreyttu handrit sín – Alþýðulist og skreytingar í handritum síðari alda eftir Kjartan Atli Ísleifsson sagnfræðing. Bókin kemur út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar sem Háskólaútgáfan gefur út í samráði við Miðstöð einsögurannsókna við Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands. Þetta er 35. bókin í ritröðinni en ritstjórar hennar eru þau Davíð Ólafsson, Sólveig Ólafsdóttir, Bragi Þorgrímur Ólafsson og Sigurður Gylfi Magnússon.
Bókin greinir og birtir myndrænt efni og skreytingar í íslenskum pappírshandritum frá lokum 17. aldar til upphafs þeirrar 20. Drjúgur hluti þessa efnis er unninn af alþýðufólki. Skrifararnir nutu ekki formlegrar menntunar í myndlist eða teikningu og unnu verkin oftast við kröpp kjör og fátæklegar aðstæður. Þetta efni veitir innsýn í sjónmenningu landsmanna löngu fyrir upphaf formlegrar myndlistarsögu á Íslandi. Í bókinni er einnig að finna yfirgripsmikla handritaskrá með yfir 300 lýsingum á skreyttum handritum. Hér er á ferðinni verk fyrir allt áhugafólk um myndlist í nútíð og fortíð.
Kjartan Atli Ísleifsson er sagnfræðingur (BA 2021 og MA 2023) frá Háskóla Íslands og hefur handritamenning síðari alda verið hans helsta rannsóknarefni. Að námi loknu vann hann við verkefni á handritasafni Landsbókasafnsins sem tengdist rafrænnri skráningu handrita inn á vefinn handrit.is (2023–2024) en starfar nú á Minjasafninu á Akureyri.
