Skip to main content
15. desember 2025

Trúboð Bræðrasafnaðarins á Íslandi á 18. öld

Trúboð Bræðrasafnaðarins á Íslandi á 18. öld - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Hve aumir og blindir þeir eru: Dyonysius Piper á Íslandi 17401743 í ritstjórn Sumarliða R. Ísleifssonar, prófessors emeritus í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Í bókinni eru birt bréf trúboðans Pipers og önnur gögn þar sem fjallað er um aðstæður á Íslandi undir miðja 18. öld, hvernig honum vegnaði, hver urðu afdrif hans og fjallað um trúarviðhorf Bræðrasafnaðarins (Herrnhúta). Í bókinni er birtur ítarlegur inngangur eftir Joanna Kodzik og Sumarliða og grein eftir Gunnar Kristjánsson um píetismann en Gunnar þýddi flest bréfin sem eru birt í bókinni. Útgefandi er Háskólaútgáfan.

Árið 1739 skrifaði Nikolaus Ludwig von Zinzendorf (1700–1760) greifi og leiðtogi hins endurnýjaða bræðralags Herrnhúta, eða Bræðrasafnaðarins, svonefnda „Herrnhaag kantötu“ þar sem eftirfarandi texti birtist:

Stöðuvötn Lapplands,
hráar auðnir Grænlands,
hæðir St. Thomas,
strendur Savannah
hafa séð okkur …
Ísland verður landareign Jesú
þrátt fyrir gjósandi Heklu!

Bræðrasöfnuðurinn var og er sérstök kirkjudeild undir áhrifum píetisma eða hreintrúarstefnu. Kantatan var skrifuð ári áður en Herrnhútabróðirinn Dionysius Piper (1706–1751) hélt frá Kaupmannahöfn til Íslands þar sem hann dvaldi árin 1740–1743 á Miðnesi á Reykjanesi, lengst af í Fuglavík, skammt frá Sandgerði. Piper hafði verið valinn af Herrnhútum til þess að koma svonefndri „Íslandsáætlun“ í framkvæmd, þ.e. að leita „vakandi“ kristinna manna meðal Íslendinga og flytja þeim boðskapinn um frelsarann Jesú.

Í bókinni Hve aumir og blindir þeir eru eru kynnt bréf og aðrir textar sem tengjast Íslandsdvöl Pipers kynnt en jafnframt fjallað um sögulegt baksvið Herrnhúta, hvernig Ísland kom þeim fyrir sjónir og hvers konar menningarheimi landið var talið tilheyra. Einnig er rætt hvernig Piper farnaðist í landinu, hvaða tengsl hann myndaði og hvernig hann lýsti kynnum sínum af Íslendingum. Bókinni er því ætlað að kynna orðræðu um Ísland frá miðri 18. öld eins og hún birtist í bréfum Pipers og öðrum heimildum í safni Herrnhúta í bænum Herrnhut í Þýskalandi. Gögn Herrnhúta varpa ljósi á þá heimsmynd sem söfnuðurinn gekk út frá í störfum sínum. Eftir að hann var kominn á legg var megináhersla lögð á trúboð meðal „heiðingja“ í heimshlutum þar sem „siðmenningin“ hafði ekki fest rætur. Ísland var eitt þeirra svæða sem svo var ástatt um að mati safnaðarins, auk annara jaðarsvæða í norðri, og svo víða í nýlendum Evrópuríkja í austri og vestri. Nefna má að kristniboð Herrnhúta í Grænlandi var afar umfangsmikið, stóð yfir í nærri 170 ár, frá 1733, og hafði mikil áhrif.

Út er komin bókin Hve aumir og blindir þeir eru: Dyonysius Piper á Íslandi 1740‒1743 í ritstjórn Sumarliða R. Ísleifssonar, prófessors emeritus í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands.