Mótorbátabyltingin á Ströndum

Oddi
Stofa 101
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri heldur erindi í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist „Mótorbátabyltingin á Ströndum.“
Málstofan er í stofu 101 í Odda, þriðjudaginn 2. desember kl. 16:00-17:00. Verið öll velkomin.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þrjár spurningar sem tengjast þróun sjávarútvegs og samfélags á Ströndum um og eftir aldamótin 1900.
- Af hverju umfangsmiklar hákarlaveiðar á Húnaflóa leiddu ekki til þess að þilskipaútgerð hófst á Ströndum líkt og gerðist í Eyjafirði? Í stærra samhengi má velta fyrir sér hvort miklar framfarir í bátasmíð og seglabúnaði á Vestfjörðum nítjándu öld hafi leidd til þess að opnir bátar höfðu yfirburði yfir þilskip.
- Hvernig skortur á aðgengi að lánsfjármagni leiddi til þess að vélvæðing bátaflotans átti sér stað 20 árum síðar á Ströndum en í Ísafjarðardjúpi. Hér má velta fyrir sér hvort opnun útbús Íslandsbanka á Ísafirði árið 1904 hafi skipt höfuðmáli fyrir vélvæðingu sjávarútvegs á Vestfjörðum.
- Hlutverk segla á bátum eftir tilkomu mótora. Flestir vélbátar á Íslandi á fyrstu áratugum tuttugustu aldar voru einnig með góðan seglabúnað og hefði að nútímahætti mátt kalla þá tvinnbáta. Með seglum var bæði hægt að ná meiri hraða og spara olíu.
Bjarni Jónsson afi Ásgeirs gerði út bát frá Asparvík á Ströndum á árunum 1929 til 1951. Hann átti sexæring sem hét Síldin og var smíðaður í Bolungarvík á milli 1860-1880. Bjarni gerði hann fyrst út sem áraskip en lét síðan setja vél í hann. Aflaskýrslur og reikningar frá þessari útgerð gefa innsýn rekstrarhagfræðilega sýn á bátaútgerð á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Í því samhengi er gaman að ræða um ýmsar mýtur og staðreyndir í bátaútgerð og vélvæðingu á fyrstu áratugum tuttugustu aldar.
Ásgeir Jónsson
