Doktorsvörn í læknavísindum - Hildur Margrét Ægisdóttir

Aðalbygging
Hátíðasalur
Föstudaginn 12. desember 2025 ver Hildur Margrét Ægisdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Erfðir hjartsláttartruflana, raflífeðlisfræði hjartans og yfirliðs. Genetics of heart rhythm disorders, cardiac electrophysiology and syncope.
Andmælendur eru dr. Arthur AM Wilde, prófessor við Háskólasjúkrahúsið í Amsterdam, og dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild HÍ.
Umsjónarkennari var Davíð O. Arnar, prófessor og leiðbeinandi Hilma Hólm, sérfræðingur. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ingibjörg Jóna Guðmundsdóttir, sérfræðingur, Rósa Björk Þórólfsdóttir, sérfræðingur og Daníel F. Guðbjartsson, yfirmaður tölfræðideildar ÍE.
Sædís Sævarsdóttir, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 9:00.
Ágrip
Áhrif erfða á ofansleglahraðtakt og leiðslutruflanir í hjarta, sem og yfirlið, hafa verið lítið rannsökuð. Meginmarkmið þessa doktorsverkefnis var að öðlast innsýn í meingerð þeirra með notkun víðtækrar erfðamengisleitar og viðbótaraðferða eins og genaskora og Mendelskrar slembiröðunar. Í fyrsta hluta verkefnisins fundust tengsl tíu erfðabreytileika við ofansleglahraðtakt, sem benda meðal annars til að virkni natríumjónaganga, kalíumjónaganga og ósjálfráða taugakerfisins eigi þátt í hættu á ofansleglahraðtakti. Í öðrum hluta fundust tengsl 162 erfðabreytileika við leiðslutruflanir í hjarta og voru margir þeirra einnig með tengsl við gáttatif og hjartavöðvakvilla. Mendelsk slembiröðun undirstrikaði orsakaáhrif af gáttatifi á sjúkan sínushnút en gaf ekki til kynna beint orsakasamband milli hjartavöðvakvilla og leiðslutruflana. Meðal erfðabreytileikanna var auðgun í bindisetum fyrir GATA-4 og ESRRG, sem eru tjáningarþættir sem eiga hlut í ofvexti á hjartavöðva. Í þriðja og seinasta hlutanum fundust tengsl 18 erfðabreytileika við yfirlið, en hvorki erfðabreytileikarnir né genaskor byggt á áhrifum þeirra tengdust öðrum sjúkdómum. Auðgun meðal erfðabreytileikanna í stjórnsvæðum sem eru sértæk taugavef, og áhrif þeirra á stjórnun hjartsláttarhraða benda á hlutverk úrvinnslu ósjálfráða taugakerfisins í meingerð yfirliða. Ofangreindar rannsóknir veita nýja innsýn inn í erfðir sjúkdóma í leiðslukerfi hjarta og yfirliðs og tengsl þeirra við aðra hjartasjúkdóma og ósjálfráða taugakerfið.
Abstract
The genetic background of cardiac paroxysmal supraventricular tachycardias (PSVTs), conduction disorders (CDs), and syncope is poorly understood. The aim of this doctoral project was to provide insights into the pathophysiology of PSVTs, CDs and syncope through a genome-wide approach, and through adjunct methods such as genetic scores and Mendelian randomization. In the first part of the project, we identified ten associations with PSVTs which support that activity of sodium ion channels, potassium ion channels and the autonomic nervous system, among others, have a role in the risk of PSVTs. In the second, we found 162 associations with CDs, of which many also associated with atrial fibrillation and cardiomyopathies. Mendelian randomization validated a causal role for atrial fibrillation in sinus node dysfunction risk but did not support a straightforward causal relationship between cardiomyopathies and CDs. Among the CD variants, there was enrichment at binding sites for GATA-4 and ESRRG, both of which are transcription factors involved in myocardial hypertrophy. In the third and final part, we found 18 associations between sequence variants and syncope, but neither the variants nor a genetic score based on their effects associated with other diseases. Enrichment in neural-specific regulatory regions and effects of the variants on heart rate regulation pointing to a role of central processing and the autonomic nervous system in the pathophysiology of syncope. These studies provide novel insights into the genetics of diseases of the cardiac conduction system and syncope, and their relationship with other heart disease and the autonomic nervous system.
Um doktorsefnið
Hildur Margrét Ægisdóttir er fædd árið 1990 í Reykjavík. Hún lauk kandídatsprófi í læknisfræði við Háskóla Íslands 2015 og starfaði á klínískum deildum Landspítala þar til hún hóf störf hjá hjarta- og æðasjúkdómasviði Íslenskrar erfðagreiningar árið 2018. Árið 2020 hóf hún doktorsnám í læknavísindum með áherslu á erfðir hjartsláttartruflana og yfirliðs. Hildur starfar nú einnig sem læknir á Heilsugæslunni í Hlíðum og mun hefja sérnám í heimilislækningum í byrjun árs 2026. Foreldrar Hildar eru Sigríður Anný Gunnlaugsdóttir og Ægir Breiðfjörð Sigurgeirsson. Sambýlismaður hennar er Ólafur Freyr Birkisson og saman eiga þau tvær dætur, þær Sigríði Kristínu (7 ára) og Bergþóru Margréti (4 ára).
Hildur Margrét Ægisdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 12. desember 2025.
