Rannsóknarsamstarfsverkefni og þemaskóli tengd HÍ fá styrk frá Aurora-samstarfinu

Vísindafólk Háskóla Íslands kemur að fjórum af níu rannsóknarsamstarfsverkefnum innan Aurora-háskólanna sem fengu nýverið hvatastyrki. Ásamt því stendur starfsfólk Háskóla Íslands að einum þemaskóla, sem fékk styrk í sömu úthlutun. Þetta er í annað sinn sem Aurora-netið úthlutar styrkjum sem þessum en þeim var fyrst úthlutað í fyrra.
Markmiðið með hvatastyrkjunum er að stuðla að auknu rannsóknarsamstarfi milli vísindafólks innan Aurora-háskólanna. Kallað var eftir umsóknum um styrki til stuðla að rannsóknarsamstarfi í upphafi árs 2025 þar sem áhersla var á að efla frekar samstarf bæði meðal ungra og reyndra fræðimanna. Umsóknirnar voru metnar á grundvelli gæða, frumleika og hagkvæmni auk þess sem litið var til þess hvort verkefnin stuðluðu að mögulegri uppbyggingu nýrra rannsóknarhópa og kennsluhópa innan Aurora (e. Educational Hubs). Alls bárust 29 framúrskarandi umsóknir frá öllum Aurora-háskólunum en að þeim stóðu á annað hundrað fræðimenn af fjölbreyttum fræðasviðum. Alls voru níu rannsóknasamstarfsverkefni sem stóðu upp úr og hlutu hvert að meðaltali 14 þúsund evrur í styrktarfé, jafnvirði um tveggja milljóna króna.
Íslenskt fræðafólk áberandi í úthlutun hvatastyrkja
Eins og áður hefur komið fram tengjast fjögur verkefnanna vísindastarfi innan HÍ en í tveimur þeirra stendur íslenskt fræðafólk í stafni.
- Freyja Jónsdóttir, dósent við Lyfjafræðideild, tekur þátt í rannsóknarsamstarfinu AppMedDD ásamt vísindafólki við Duisburg-Essen háskólann í Þýskalandi, Carmel Hughes háskólann í Belfast á Írlandi og Háskólann í Innsbruck í Austurríki, sem leiðir verkefnið. Auk þeirra kemur Aðalsteinn Guðmundsson að verkefninu fyrir hönd Landspítalans. Verkefnið fellur undir áherslusvið Aurora-samstarfsins um heilsu og velsæld og snýr að því að þróa áhættuminnkandi verklag við lyfjaávísun til einstaklinga með heilabilun.
- Marianne Rasmussen, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík, leiðir rannsóknarsamstarfið BLUeDNA sem nýtir nýjar aðferðir við rannsóknir á steypireyðum í Norður-Atlantshafi og fellur undir áherslusvið um sjálfbærni. Með henni í verkefninu verður Maria Refsgaard Iversen, sem hefur stundað rannsóknir við Háskóla Íslands, ásamt vísindafólki frá Innsbruck-háskólanum í Austurríki, National Academy of Sciences í Úkraínu og Karazin Kharkiv háskólanum í sama landi.
- Þórhallur Eyþórsson, prófessor í málvísindum við Mála- og menningardeild, tekur þátt í rannsóknarsamstarfinu GRAMCMA um áhrif fjölmenningar á málfræði í þéttbýli og fellur verkefnið undir áherslusvið um menningu, sjálfsmyndir og fjölbreytni. Federico II háskólinn í Napólí á Ítalíu leiðir samstarfið en auk þess kemur Minnesota-háskólinn í Bandaríkjunum að samstarfinu.
- Elena Callegari, nýdoktor á Hugvísindasviði, leiðir rannsóknarsamstarfið HONE sem snýst um það hvernig frásagnir koma fram á sjónarsviðið í almennri orðræðu. Verkefnið fellur einnig undir áherslusvið um menningu, sjálfsmyndir og fjölbreytni. Að samstarfinu kemur einnig vísindafólk frá Palacký-háskólanum í Tékklandi, Federico II háskólanum í Napólí á Ítalíu og Rovira i Virgili háskólanum á Spáni.

Hægt er að kynna sér öll níu verkefnin á vef Aurora.
Háskóli Íslands tekur þátt í þemaskóla um ósýnilegt óréttlæti
Í auglýsingu fyrir styrki í ár voru einnig í boði hvatastyrkir fyrir svokallaða sumarskóla sem ætlað er að styðja við rannsóknarsamstarf og um leið auka tækifæri til tengslamyndunar og fræðslu meðal háskóla innan Aurora-netsins. Tveir skólar voru styrktir en annar þeirra er þemaskóli sem ber titilinn FASSV- JUSTICE þar sem fjallað verður um ósýnilegt óréttlæti og baráttu gegn kerfislægu ofbeldi. Verkefnið leiðir Rovira i Virgili háskólinnn á Spáni en fjölmargir háskólar í Aurora-netinu koma að skipulagi sumarskólans, þeirra á meðal Háskóli Íslands, en Freydís J. Freysteinsdóttir, prófessor í félagsráðgjöf, verður fulltrúi HÍ í verkefninu.
Stefnt er að því að veita hvatningarstyrki á ný á næsta ári og rennur umsóknafrestur út í lok mars 2026. Auglýst verður sérstaklega eftir umsóknum meðal starfsfólks Háskóla Íslands en jafnframt má fylgjast með tækifærissíðu Aurora hjá HÍ en þangað rata ýmiss konar tækifæri sem tengjast Aurora-netinu.
