Hamfaraþættir byggðir á rannsóknarverkefni við HÍ sýndir á RÚV

Hvað er hægt að læra af því hvernig norrænu ríkin takast á við ólíkar tegundir náttúruhamfara og hvernig drögum við úr skaðanum og aukum seiglu og viðnámsþrótt samfélaga sem þurfa að takast á við þessar hættur? Þessum spurningum verður svarað í heimildaþáttum sem sýndir verða á RÚV 11. og 18. nóvember og byggjast á norrænu rannsóknarverkefni sem vísindafólk við Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands stýrði.
Þættirnir bera heitið „Á valdi náttúruaflanna“ og grundvallast á norræna verkefninu NORDRESS sem hlaut árið 2014 yfir 400 milljóna króna styrk frá NordForsk til að koma á fót öndvegissetri um rannsóknir á því hvernig auka má öryggi samfélaga gagnvart náttúruhamförum. Verkefninu stýrðu Guðrún Pétursdóttir, þá forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, forvera Sjálfbærnistofnunar skólans, og Guðrún heitin Gísladóttir, prófessor í landfræði.
Í verkefninu, sem var til fimm ára, var lögð áhersla á ólíkar tegundir náttúruvár á Norðurlöndum og aðgerðir til að auka viðnámsþrótt samfélaga gagnvart þeim svo þau geti sem best búið sig undir og rétt sig við eftir áföll.
„Út úr svona stóru verkefni kemur ekkert eitt heldur mörg lítil skref í formi birtra vísindagreina og breyttra starfshátta,“ segir Guðrún Pétursdóttir sem leiddi saman fjölda vísindamanna og fulltrúa stofnana á Norðurlöndum í verkefninu ásamt nöfnu sinni Gísladóttur. „Í NORDRESS var lögð mikil áhersla á að tengja fólk þvert á greinar og landamæri til að geta sem best lært hvert af öðru. Það verður til nýr skilningur þegar jarðfræðingur, sálfræðingur, verkfræðingur, sagnfræðingur, félagsfræðingur og bæjarstjóri velta fyrir sér hvernig best sé að bregðast við yfirvofandi hættu á skriðuföllum, svo dæmi sé tekið. Fyrir utan tugi birtra vísindagreina og menntun fjölda doktors- og meistaranema er mikilvægasti afrakstur NORDRESS mörg ný og traust samstarfsnet aðila sem ekki höfðu unnið saman áður.“
Aðspurð hvers vegna ráðist hafi verið í gerð þáttanna, segir Guðrún. „Okkur fannst ekki nóg að ná bara til fræðimanna heldur vildum við ná til almennings með þann boðskap að það er margt hægt að gera til að draga úr skaða af völdum hamfara. Sjónvarpsmynd er skilvirk leið til að ná til almennings,“ segir hún.
Norrænu ríkin standa frammi fyrir mismunandi ógnum
Norrænu ríkin standa frammi fyrir mismundandi ógnum í náttúrunni og það endurspeglast vel í þáttunum. „Í þáttunum er fjallað um viðbrögð við einni gerð náttúruvár í hverju norrænu ríkjanna. Skógarelda í Finnlandi, hamfararigningar í Danmörku, sjávarflóð í Svíþjóð, berghlaup og skriður í Noregi og eldvirkni og snjóflóð á Íslandi. Það er útskýrt í hverju hættan er fólgin, hverjar afleiðingar hennar geta orðið, hvernig er að búa við þessa hættu og hvað hægt er að gera til að draga úr henni og þeim skaða sem getur orðið,“ segir Guðrún og bætir við að rætt sé fjölbreyttan hóp í þáttunum, þar á meðal fræðafólk við HÍ og Íslendinga sem lent hafa í snjóflóði.
Aðspurð hvernig norrænu ríkin séu almennt búin undir hamfarir segir Guðrún að þau séu betur búin en mörg önnur lönd. „Fyrir utan sterkan efnahag og innviði skipta máli góð þekking, traust á vísindum, áreiðanleg vöktun, skilvirkar viðvaranir og skynsöm þjóð sem hlustar og fer eftir tilmælum,“ bendir hún á.
Þættirnir um NORDRESS-verkefnið eru tveir og sem fyrr segir verða þeir sýndir á RÚV 11. og 18. nóvember en einnig verður hægt að horfa á þá á vef RÚV að lokinni frumsýningu.
