Skip to main content
4. nóvember 2025

Stóra LEGO-keppni grunnskólanna fagnar 20 ára afmæli 

Stóra LEGO-keppni grunnskólanna fagnar 20 ára afmæli  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stóra LEGO-keppni grunnskólanna, FIRST® LEGO® League Ísland, fer fram í Háskólabíói laugardaginn 8. nóvember næstkomandi. Alls taka 19 lið úr grunnskólum víðs vegar af landinu þátt í keppninni og eru þátttakendur um 180 talsins.

Í ár fagnar FIRST® LEGO® League 20 ára afmæli á Íslandi og verður haldið upp á það með stórglæsilegri keppni og fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Viðburðurinn verður opinn almenningi eftir hádegi en þá geta gestir á öllum aldri kynnt sér verkefni liðanna, kíkt á opið hús í Vísindasmiðju Háskóla Íslands, tekið þátt í smiðjum og spreytt sig á einföldum LEGO-þrautum.

Háskóli Íslands hefur haldið utan um keppnina frá upphafi með stuðningi ýmissa fyrirtækja. Líkt og undanfarin ár er Verkfræðingafélag Íslands helsti bakhjarl keppninnar og á stóran þátt í að gera þessa spennandi keppni að veruleika.

Eflir hæfni nemenda á sviði vísinda og tækni

FIRST® LEGO® League er alþjóðleg keppni sem nær til meira en 600.000 barna og ungmenna í 110 löndum um heim allan. Markmið keppninnar er að efla áhuga og hæfni nemenda á sviði vísinda og tækni, hvetja til nýsköpunar og styrkja lífsleikni eins og sjálfstraust, samvinnu og samskiptahæfni.

Á hverju ári er valið nýtt þema sem tengist raunverulegu vísindalegu viðfangsefni. Þema ársins er „uppgröftur“ (e. unearthed), sem er innblásið af heimi fornleifafræðinnar. Keppnisliðin nota aðferðir STEM-greina – vísinda, tækni, verkfræði og stærðfræði – til að skoða fortíðina, draga lærdóm af henni og finna lausnir sem nýtast í framtíðinni.

Skipulag og dagskrá keppninnar

Keppnin hefst kl. 9.30 og verður sýnd í beinu streymi á vefsíðunni firstlego.is. Einnig má fylgjast með beinu streymi hér.

Keppninni er skipt í fjóra meginhluta og reynir því á fjölbreytta hæfni nemenda við að leysa ýmis verkefni tengd þema ársins:

  • Vélmennakappleikur: Nemendur hanna og forrita LEGO-þjarka sem leysa þrautir á þrautabraut.
  • Nýsköpunarverkefni: Liðin kanna og leysa raunveruleg vandamál með skapandi hætti.
  • Kynningar: Liðin kynna nýsköpunarverkefni sín ásamt hugmyndavinnu og ferli á bak við þau.
  • Liðsheild: Lögð er áhersla á samvinnu, samskiptahæfni og góðan liðsanda.

Það lið sem nær hæstu heildareinkunn í þessum fjórum flokkum hlýtur titilinn FIRST® LEGO® League meistarar árið 2025 og vinnur sér inn þátttökurétt á mótum FIRST® LEGO® League erlendis.

Fræðsla og skemmtun fyrir alla aldurshópa

Sem fyrr segir verður boðið upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá fyrir alla fjölskylduna meðan á keppninni stendur. Vísindasmiðja Háskóla Íslands býður gestum á öllum aldri að kynnast töfraheimi vísindanna og námsbraut í fornleifafræði í HÍ verður með spennandi smiðju og fræðslu. Gestir eru jafnframt hvattir til að spreyta sig á einföldum LEGO-þrautum.

Húsið verður opnað almenningi kl. 13 og eru öll áhugasöm hvött til að koma og fylgjast með, kynna sér nýsköpunarverkefni liðanna í anddyri Háskólabíós og taka þátt í gleðinni sem einkennir þessa einstöku keppni.

Þátttakendur í Stóru LEGO-keppni grunnskólanna, FIRST® LEGO® League Ísland, í fyrra.