Ryan Eyford hlýtur Vigdísarverðlaunin 2025

Kanadíski sagnfræðingurinn Ryan Eyford er handhafi Vigdísarverðlaunanna 2025. Rektor Háskóla Íslands og fulltrúi menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra munu afhenda verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands 6. nóvember næstkomandi og mun Eyford flytja erindi af því tilefni. Vigdísarverðlaunin eru árlega veitt einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu tungumála, menningar og þýðingastarfs.
Eyford hlýtur Vigdísarverðlaunin 2025 fyrir rannsóknir sínar á sögu Nýja Íslands í Manitoba. Bók hans White Settler Reserve: New Iceland and the Colonization of the Canadian West (University of British Columbia Press, 2016) umbyltir viðteknum skoðunum fólks á sögu Nýja Íslands. Hún flytur lesendur úr goðsagnakenndri sýn á íslensku vesturfarana yfir í djúpstæðari skilning á þátttöku þeirra, sem og annarra evrópskra vesturfara, í landtöku-nýlendustefnu Kanada þess tíma. Í bókinni fjallar Eyford meðal annars um hlutskipti Cree-, Ojibwe- og Métis-frumbyggjanna við landtöku íslensku vesturfaranna og hvernig flókið og margþætt gangvirkið í þessari sögu við Winnipegvatn á 19. öld varpar ljósi á landtöku-nýlendustefnu á hinu alþjóðlega sviði. Sagan af íslensku vesturförunum í Kanada hefur þannig víðtæka þýðingu.
Eyford er dósent í sagnfræði við University of Winnipeg. Rannsóknir hans og kennsla snúa að sögu Manitoba, sögu íslenskra vesturfara í Norður-Ameríku og sambandi frumbyggja og landtökufólks í Kanada með hliðsjón af alþjóðlegri landtöku-nýlendustefnu. Eyford lauk MA-prófi í sagnfræði við Carleton University í Ottawa og doktorsprófi í sagnfræði við University of Manitoba þar sem hann lagði jafnframt stund á nám í íslensku. Hann hefur birt greinar og bækur á vegum virtra háskólaforlaga í Kanada. Eyford hefur jafnframt tekið virkan þátt í starfi afkomenda íslenskra vesturfara í Norður-Ameríku og setið í stjórn New Iceland Heritage Museum í Gimli.
Verðlaunin verða afhent í Aðalbyggingu Háskóla Íslands fimmtudaginn 6. nóvember kl. 15:00. Fyrirlestur Eyford ber titilinn “Commemorating Colonization: New Iceland Anniversaries”. Viðburðurinn er opinn öllum.
Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar (starfrækt undir merkjum UNESCO) efndu til Vigdísarverðlauna í tilefni af stórafmæli Vigdísar Finnbogadóttur vorið 2020, en þá voru jafnframt liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Stuðningur Vigdísar við mikilvægi tungumála og menningar hefur öðrum þræði einkennt ævistarf hennar, en hún er velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO (Mennta, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna). Fyrri handhafar Vigdísarverðlaunanna eru Asifa Majid (2024), sálfræðingur og málfræðingur, Anne Carson (2023), skáld og sérfræðingur í klassískum fræðum, Juergen Boos (2022), forstjóri Bókastefnunnar í Frankfurt, grænlenska ljóðskáldið og málvísindakonan Katti Frederiksen (2021), og færeyski málvísindamaðurinn, kennarinn og útgefandinn Jonhard Mikkelsen (2020).
Í stjórn Vigdísarverðlauna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands; Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilnefnd af Vigdísarstofnun, og Páll Valsson, rithöfundur og útgáfustjóri bókaforlagsins Bjarts, tilnefndur af menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, starfar með nefndinni.
