Takamado prinsessa í heimsókn

Hennar keisaralega hátign, Takamado prinsessa frá Japan heimsótti Háskóla Íslands fimmtudaginn 16. október. Eftir að hafa fundað með Silju Báru R. Ómarsdóttur, rektor Háskóla Íslands og skoðað sýninguna um Vigdísi Finnbogadóttur í Loftskeytastöðinni hélt Takamado prinsessa í Veröld. Þar tók Kristín Ingvarsdóttir, dósent í japönskum fræðum, á móti henni í Vigdísarstofu ásamt samkennurum og Sofiyu Sahova, forstöðumanni Vigdísarstofnunar. Kristín sagði m.a. frá starfi Vigdísar Finnbogadóttur í þágu tungumála, japönskukennslu við HÍ og nýlegum heiðursdoktorsnafnbótum japönsku listamannanna Haruki Murakami og Yoko Ono við Mála- og menningardeild HÍ. Næst heimsótti prinsessan kennslustund í námskeiðinu japanskt þjóðfélag og menning þar sem fulltrúar nemendafélagsins Bonsai héldu kynningu á starfsemi félagsins, en félagið er gróskumikið og stendur fyrir fjölda viðburða á hverju ári, til viðbótar við þátttöku í hinni árlegu Japanshátíð.
Takamado prinsessa færði námsgreininni bækur að gjöf sem hún áritaði af þessu hátíðlega tilefni. Bækurnar eru allar á japönsku, en meðal þeirra er ljósmyndabók eftir Prins Takamado sem lést árið 2002. Náttúruljósmyndir af villtum fuglum eftir Takamado prinsessu vöktu mikla athygli þar sem þær voru sýndar á meðan hún flutti hátíðarfyrirlestur sinn á Arctic Circle í síðustu viku.
Í sendinefnd Takamado prinsessu voru m.a. Keizo Takewaka sendiherra Japans á Íslandi og Atsushi Sunami forseti Sasakawa Peace Foundation.




