Yfirlitsrit um minnisfræði í ólíkum fræðigreinum

Út er komin bókin Memory Studies in the Nordic Countries: A Handbook í ritstjórn Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, prófessors í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ullu Savolainen, lektors í þjóðfræði við Háskólann í Helsinki sem rita ítarlegan inngangskafla.
Bókin er sú fyrsta í nýrri ritröð handbóka frá Brill um minnisfræði í ólíkum heimshlutum. Í bókinni eru sautján kaflar, eftir höfunda frá öllum Norðurlöndunum auk Eistlands, sem fjalla um fjölmargt sem tengist minnisfræðum úr ólíkum fræðigreinum, þar á meðal bókmenntafræði, kvikmyndafræði, munnlegri sögu, félagsfræði, sagnfræði, safnafræði, hinsegin fræði, þjóðfræði og miðaldafræði. Bókinni er ætlað að gefa yfirlit yfir hvers konar minnisfræði eru stunduð á Norðurlöndum og eru þemun mjög fjölbreytt, allt frá minnismerkjum, rýmisminni, minnihlutahópum á Norðurlöndum, nýlendustefnu til hvalveiða.
Meðal þeirra frá Háskóla Íslands sem eiga kafla í verkinu eru Hafdís Erla Hafsteinsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, sem ásamt Riikka Taavetti og Anu Koivunen skrifar kaflann „Queer Memory“. Þá á Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði, kafla í bókinni sem nefnist „Iceland‘s Foreign Policy Identities“ og Ólafur Rastrick, prófessor í þjóðfræði, ritar kaflann „Emplaced Memories in the Urban Landscape.“
Bókin er komin út sem rafbók og kemur brátt út á prenti. Sjá nánar á vefsíðu Brill.
