Skip to main content
29. september 2025

Sextíu ára skólasaga Mynd & hand

Sextíu ára skólasaga Mynd & hand - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Mynd & hand: Skólasaga 1939-1999, eftir Davíð Ólafsson, dósent í menningarfræðum við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Arndísi S. Árnadóttur sagnfræðing. Sögufélagið er útgefandi. Bókin segir sextíu ára sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands, allt frá því að hann hóf að starfa í fjórum geymsluherbergjum í kjallara við Hverfisgötu árið 1939 undir nafninu Handíðaskólinn og þar til hann var lagður niður samhliða stofnun Listaháskóla Íslands árið 1999.  

Í kynningartexta bókarinnar segir að þegar Lúðvíg Guðmundsson stofnaði Handíðaskólann hafi hugsjón hans verið að auka verklegt nám í barnaskólum fyrir bæði pilta og stúlkur og varðveita þannig og miðla verkkunnáttu sem hann taldi að væri á undanhaldi. Smám saman varð hlutverk skólans fjölbreyttara og lengi vel má segja að hann hafi verið margir skólar í einum. Þar hlutu kennarar menntun í handíðum og myndlist og þar sótti fjöldi barna og fullorðinna námskeið í öllu frá bókbandi og leðurvinnu til ljósmyndunar og auglýsingateiknunar. Á tímabili menntaði hann verðandi bændur og veitti fötluðum unglingum kennslu í verklegum greinum. Síðast en ekki síst varð hann fyrsti myndlistaskóli landsins til að starfrækja dagdeild. Margir af þekktustu listamönnum þjóðarinnar lærðu og kenndu við skólann og þegar á leið var hann í framvarðasveit skapandi lista í landinu.

Davíð Ólafsson hefur verið fræðimaður við Háskóla Íslans frá 2014 og rannsóknir hans hafa einkum beinst að virkni bóklegrar miðlunar út frá sjónarhóli hversdagsmenningar og hugmyndum um atbeina (e. agency) og iðkun (e. practices). Hann hefur ritað fjölda greina og áður hefur komið út eftir hann bókin Frá degi til dags: Dagbækur, almanök og veðurbækur 1720–1920 (2021) og hann er meðhöfundur bókanna Objects in the Archives: Modern Material Culture and Heritage in the North (2024), Minor knowledge and microhistory: Manuscript culture in the nineteenth century (2016) og Burt – og meir en bæjarleið. Dagbækur og persónuleg skrif Vesturheimsfara á síðari hluta 19. aldar (2001).

Arndís S. Árnadóttir var sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hún veitti bókasafni Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands forstöðu í 30 ár og var stundakennari við Háskóla Íslands. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2011 þegar hún varði ritgerðina Nútímaheimilið í mótun, fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970. Arndís lést árið 2023.

Út er komin bókin Mynd & hand: Skólasaga 1939-1999, eftir Davíð Ólafsson, dósent í menningarfræðum við Íslensku- og menningardeild, og Arndísi S. Árnadóttur sagnfræðing.