Það er ótrúleg orka og drifkraftur í nýsköpunarumhverfinu

Haraldur Bergvinsson útskrifaðist í vor með meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá Háskóla Íslands og starfar nú hjá KLAK Icelandic Startups. Starfið fékk í kjölfar þess að fór í starfsþjálfun í námi sínu.
Haraldur Bergvinsson lauk bæði grunn- og meistaranámi frá Háskóla Íslands. Hann kláraði fyrst BS í viðskiptafræði og fór síðan í meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun og útskrifaðist vorið 2025. Nú starfar hann sem verkefnastjóri hjá KLAK Icelandic Startups, þar sem hann aðstoðar frumkvöðla við að láta hugmyndir sínar verða að veruleika.
Um hvað fjallaði lokaverkefnið þitt?
Verkefnið mitt snerist um óbein áhrif nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Stuðningur við nýsköpun getur haft mjög víðtæk áhrif. Ég tók fyrirtækið Marorku sem dæmi og skoðaði hvernig styrkir til þess leiddu til þekkingaryfirfærslu yfir í önnur fyrirtæki og starfsemi. Bæði vegna hreyfanleika starfsfólks á milli starfa og þegar fyrrverandi starfsfólk stofnaði ný sprotafyrirtæki. Það sem kom mér mest á óvart var hversu mikil verðmæti verða til utan hinna hefðbundnu mælikvarða, eins og peningalegs hagnaðar, til dæmis í formi tengslaneta, aukinnar hæfni og reynslu sem svo nýtist annars staðar í nýsköpunarumhverfinu.
Hvað ertu að gera í dag?
Ég vinn í dag sem verkefnastjóri hjá KLAK Icelandic Startups og stýri þar m.a. KLAK Health – nýjum hraðli fyrir heilbrigðistengd sprotafyrirtæki sem er að fara af stað í lok október. Þetta er mjög spennandi verkefni og mér finnst sérstaklega gefandi að vinna með frumkvöðlum sem eru að taka sín fyrstu skref. Ég fékk starfið eftir að ég fór í starfsþjálfun hjá KLAK á lokaárinu í meistaranáminu. Í starfsþjálfuninni fékk ég góða innsýn í starfsemi þeirra og kynntist teyminu vel. Svo var mér boðin vinna hjá þeim að lokinni starfþjálfun. Ég mæli eindregið með því að fara í starfsþjálfun. Hún getur hjálpað manni að komast í góð störf. Auk þess byrjaði ég nýverið sem stundakennari við Háskóla Íslands og kenni áfangann Stjórnun nýsköpunar þannig að tengslin við skólann slitna ekki alveg.
Hvernig hefur námið nýst þér í starfi?
Það hefur nýst mér virkilega vel. Sérstaklega skilningurinn á nýsköpunarumhverfinu og hvernig stuðningur getur hjálpað sprotafyrirtækjum að vaxa og dafna. Þetta kemur að notum bæði í skipulagningu hraðalsins sem ég stýri og í öðrum verkefnum sem ég vinn að innan KLAK.
Fórstu í skiptinám?
Nei, ég fór ekki í skiptinám. Ég ákvað að nýta tækifærin hér heima og sú ákvörðun leiddi mig meðal annars í starfsþjálfunina sem skilaði sér í framtíðarstarfi.
Ert þú með einhverjar ráðleggingar til nýnema?
Taktu námið alvarlega en ekki of alvarlega. Það er auðvitað mikilvægt að læra og skila verkefnum en ekki gleyma að njóta líka. Tíminn í háskólanum er svo skemmtilegur. Nýtið hann til að kynnast fólki, prófa nýja hluti og safna minningum. Það getur líka hjálpað ykkur í framtíðinni, bæði persónulega og svo eins upp á tengslanetið. Svo er miklu skemmtilegra að læra og skemmta sér með góðu fólki en að vera að standa í þessu ein.
