Flutti doktorsfyrirlestur um orðastæður í íslensku og spænsku

Nuria Frías Jiménez flutti doktorsfyrirlestur í spænsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands í Hátíðasal í Aðalbyggingu fimmtudaginn 21. ágúst síðastliðinn. Nuria varði doktorsritgerðina sína 12. desember síðastliðinn við Háskólann í Sevilla á Spáni en ritgerðin var unnin undir leiðsögn Erlu Erlendsdóttur, prófessors í spænsku við Háskóla Íslands, og Auxiliadoru Castillo Carballo, prófessors við Háskólann í Sevilla. Einnig voru í doktorsnefnd Sigrún Á. Eiríksdóttir þýðandi og Begoña Sanromán Vilas, dósent við Háskólann í Helsinki. Gísli Magnússon, deildarforseti Mála- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni.
Um rannsóknina
Doktorsverkefni Nuriu Frías Jiménez fjallar um orðastæður í íslensku og spænsku og er hagnýt samanburðarrannsókn. Orðastæður eru orðasambönd sem getur reynst erfitt að læra og tileinka sér í tungumálanámi. Tilgangur rannsóknarinnar er m.a. sá að greina hvað orðastæður í spænsku og íslensku eiga sameiginlegt og hvað ekki, en slíkur samanburður hefur ekki verið gerður áður í þessum tungumálum. Niðurstöður rannsóknarinnar munu nýtast í nýja íslensk-spænska orðabók sem er í smíðum (LEXÍA-SP) á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Jafnframt munu þær nýtast í gerð kennsluefnis fyrir nemendur í spænsku á Íslandi.
Um doktorinn
Nuria Frías Jimenez er með BA-gráðu annars vegar í spænsku og hins vegar í ensku frá Universitat Autònoma de Barcelona og sameiginlega MA-gráðu í kennslu spænsku sem erlends máls frá Universidad de Deusto í Bilbao og Háskóla Íslands. Samhliða doktorsnáminu hefur Nuria starfað sem stundakennari í spænsku við Mála- og menningardeild.


