Varpa ljósi á andlega heilsu barna og unglinga með taugafjölbreytni

Ný rannsókn sem birtist í virta læknisfræðitímaritinu The Lancet Child & Adolescent Health er ein sú yfirgripsmesta hingað til þar sem andleg heilsa barna og unglinga án þroskahömlunar á aldrinum 7–18 ára á Íslandi sem eru einhverf, með ADHD eða bæði er könnuð. Að rannsókninni standa vísindamenn og sérfræðingar við Geðheilsumiðstöð barna við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Barna- og fjölskyldustofu auk samstarfsaðila við Virginia Polytechnic Institute and State University í Bandaríkjunum.
Rannsóknin byggist á gögnum frá yfir 2.000 börnum og unglingum sem fengu greiningu á taugaþroskafjölbreytileika í gegnum miðlægt og staðlað klínískt greiningarferli á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar í Reykjavík (nú Geðheilsumiðstöð barna). Þar fór fram ítarlegt mat af hálfu sérfræðinga á taugaþroskafjölbreytileika og geðrænum áskorunum ásamt mati foreldra og kennara á tilfinninga- og hegðunarerfiðleikum.
Helstu niðurstöður:
- Um það bil 1,5% barna og unglinga án þroskahömlunar á aldrinum 7–18 ára voru greind einhverf og 4,5% með ADHD.
- Af þeim sem voru einhverf reyndust um tvö af hverjum þremur einnig með ADHD, sem undirstrikar hve algengt það er að þessi taugafjölbreytni fari saman og hve mikilvægt er að veita hópnum viðeigandi stuðning.
- Kvíði og kækjaraskanir voru algengari meðal allra taugafjölbreyttra hópa samanborið við börn og unglinga sem ekki voru greind einhverf, með ADHD eða einhverf-ADHD. Hins vegar voru aðrar geðrænar áskoranir, svo sem þunglyndi og áráttu- og þráhyggjuröskun (OCD), af svipuðum tíðnitölum hjá öllum hópum.
- Matið á tilfinninga- og hegðunarerfiðleikum sýndi að tilfinningalegir erfiðleikar voru algengari meðal einhverfra barna og unglinga (með eða án ADHD) en hegðunarerfiðleikar voru algengari meðal þeirra sem voru með ADHD, hvort sem þau voru einnig einhverf eða ekki.
Af hverju skiptir þessi rannsókn máli?
Flestar fyrri rannsóknir hafa verið gerðar meðal einhverfra barna með og án þroskahömlunar eða notast við ónákvæmt greiningarferli. Í þessari rannsókn var í fyrsta sinn notast við staðlað, ítarlegt greiningarferli í þýðisúrtaki á landsvísu, sem veitir skýrari sýn á heilsufarslegar þarfir barna og unglinga sem eru með greiningar á taugaþroskafjölbreytileika án þroskahömlunar.
Í rannsókninni er einnig fyllt í mikilvægt skarð í þekkingu í málaflokknum. Fram til ársins 2013 gátu einhverfa og ADHD ekki farið saman samkvæmt greiningarkerfum, sem þýðir að mörg börn og unglingar með báðar birtingamyndir hafa mögulega verið vangreind eða ekki fengið viðeigandi stuðning. Með því að skoða bæði sameiginlega og sértæka eiginleika í líðan hjá þessum hópum er lagður grunnur að einstaklingsmiðaðri nálgun í skóla, heilbrigðisþjónustu og samfélagsstuðningi.
