Samið um áframhaldandi stuðning við GRÓ GEST

GRÓ – Þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu og Háskóli Íslands gerðu á dögunum samning um starfsemi Jafnréttisskóla GRÓ (GRÓ GEST) við HÍ. Á þriðja hundrað alþjóðlegir nemendur hafa stundað nám við skólann.
Jafnréttisskóli GRÓ hefur frá upphafi staðið að fimm mánaða hagnýtu námi og þjálfun í alþjóðlegum jafnréttisfræðum fyrir nemendur frá þróunarlöndum og fyrrverandi átakasvæðum. Frá upphafi hafa nærri 270 nemendur frá alls 40 löndum og fjórum heimsálfum útskrifast frá skólanum. Útskriftarnemendur hafa í kjölfarið haldið til fjölbreyttra starfa á sviði jafnréttismála í heimalöndum sínum eða á alþjóðavettvangi, t.d. innan stjórnsýslu, háskóla, grasrótarsamtaka, fjölmiðla eða lista. Sumir nemenda hafa haldið áfram námi við HÍ, bæði á meistara- og doktorsstigi, en jafnréttisskólinn starfrækir jafnframt öflugt netverk útskrifaðra nemenda og styður þá áfram eftir útskrift.
Auk þess að standa að námsleiðinni í alþjóðlegum jafnréttisfræðum stendur GRÓ GEST fyrir alþjóðlegum námskeiðum og vinnustofum. Þá hefur skólinn, í samstarfi við alþjóðlegan hóp sérfræðinga, framleitt fjögur viðamikill edX-netnámskeið (MOOCS) sem opin eru öllum og hafa notið mikilla vinsælda. Frá árinu 2020 hafa um 20.000 manns frá rúmlega 170 löndum sótt námskeiðin og stór hluti þátttakenda hefur lokið þeim með með edX-skírteini frá Háskóla Íslands
Samningurinn milli GRÓ og Háskóla Íslands kveður á um áframhaldandi samstarf á þessum nótum og er hann til þriggja ára. Það voru þau Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður GRÓ, Nína Björk Jónsdóttir, forstöðumaður þekkingarmiðstöðvarinnar, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem undirrituðu samninginn í Háskóla Íslands en viðstaddar voru einnig Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, og Irma Erlingsdóttir, prófessor og forstöðumaður Jafnréttisskólans.
Nánar um Jafnréttisskóla GRÓ
Jafnréttisskólinn sem er liður í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands var settur á laggirnar við Háskóla Íslands árið 2009, fyrst um sinn sem tilraunaverkefni en árið 2013 fékk hann aðild að neti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Árið 2020 varð hann hluti af GRÓ — þekkingarmiðstöð um þróunarsamvinnu sem starfar undir merkjum UNESCO.
Jafnréttisskólinn heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfsemi hans er þverfagleg og taka þátt í starfsemi hans, sem kennarar og leiðbeinendur, sérfræðingar af öllum fimm fræðasviðum háskólans auk fjölmargra gestaprófessora sem koma frá samstarfsháskólum í ólíkum heimshornum.
