„Feita mellan þín, ég stúta þér“: Tegundir og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum

Oddi
O-101
Freydís Jóna Freysteinsdóttir prófessor í félagsráðgjafardeild kynnir niðurstöður rannsóknar um ofbeldi í nánum samböndum.
Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rannsaka tegundir og birtingarmyndir ofbeldis í nánum samböndum sem og kyn gerenda og þolenda í okkar litla norræna samfélagi. Dómar í sakamálum sem fólu í sér ofbeldi í nánum samböndum voru innihaldsgreindir. Niðurstöðurnar sýndu að gerendur voru 42, þar af 40 karlar og tvær konur. Líkamlegt ofbeldi var algengasta tegund ofbeldis, eða í yfir 90% tilfella, en lýsingar á tilfinningalegu ofbeldi komu fram í um 40% dómanna. Loks var að finna dæmi um kynferðislegt ofbeldi í nokkrum dómum (7%). Birtingarmyndir ofbeldisins voru fjölbreyttar, s.s. morðhótanir, að berja þolandann, hrinda honum, toga í hár hans, taka hann hálstaki eða nauðga honum. Í þriðjungi tilfella þegar um börn var að ræða urðu þau vitni að ofbeldinu. Hámarksrefsing fyrir ofbeldi í nánum samböndum reyndist ekki vera notuð í neinu þessara tilvika þrátt fyrir að sum þeirra fælu í sér mjög gróft ofbeldi gagnvart þolendunum.
Erindið er hluti af fyrirlestraröð Þjóðarspegilsins um ofbeldi:
https://thjodarspegillinn.hi.is/
Fyrirlesturinn verður tekinn upp og upptaka aðgengileg á vefsíðu Þjóðarspegilsins:
https://thjodarspegillinn.hi.is/vidburdir/
Freydís Jóna Freysteinsdóttir prófessor í félagsráðgjafardeild kynnir niðurstöður rannsóknar um ofbeldi í nánum samböndum
