Jólaháskólatónleikar: Hildur Vala og Jón Ólafsson
Stakkahlíð / Háteigsvegur
Skáli
Jólaháskólatónleikar: Hildur Vala og Jón Ólafsson í Skála, Stakkahlíð, 17. desember kl. 12.15
Jólin innileg og góð nálgast með óþarflega miklum hraða. Því er ráð að hægja rétt aðeins á taktinum áður en ljúflegheitin bresta á með grenifylltum bylmingi. Þau Hildur Vala og Jón Ólafsson munu þannig koma okkur á réttan stað og strauja í burtu allt stress með ljúfum, andans lyftandi tónum. Parið er óþarft að kynna, Jón er með okkar jafnbestu píanistum og tónlistarmönnum og Hildur Vala er í fremstu röð söngkvenna, með rödd sem er í senn umlykjandi og ægifögur. Saman taka þau svo áheyrendur á annað (hátíðar)-plan. Njótum saman með vetrarsól í sinni og glóð í geði!
Tónleikarnir fara fram þriðjudaginn 17. desember og hefjast leikar kl. 12.15. Salurinn kallast Skáli og er í Stakkahlíð, húsnæði Menntavísindasviðs. Hann er gegnt Hámu á fyrstu hæð.
Tónleikunum verður einnig streymt og hægt verður að horfa á þá síðar í upptökuformi. Hvort sem þú ert í borginni, úti á landi eða úti í heimi getur þú notið hinna fögru tóna Háskólatónleikaraðarinnar og upplifað stemninguna í skólanum. Allir velkomnir á staðinn og aðgangur gjaldfrjáls.
Háskólatónleikaröðin hóf göngu sína með nýjum áherslum haustið 2020 og hafa listamenn af alls kyns toga troðið upp. Tónleikunum hefur öllum verið streymt með glæsibrag og má nálgast upptökur hér.
Umsjónarmaður tónleikaraðarinnar og listrænn stjórnandi er dr. Arnar Eggert Thoroddsen. Segist hann styðjast við slagorðið „Háskóli fyrir öll - Tónlist fyrir öll“ og er myndast við að endurspegla það í dagskránni.
Hildur Vala og Jón Ólafsson leika á jólaháskólatónleikum í Skála, Stakkahlíð, 17. desember kl. 12.15