Fingraför spekinnar: Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum
Edda
Fyrirlestrasal
Gunnar Harðarson, prófessor emeritus í heimspeki við Háskóla Íslands, flytur erindi um efni bókar sinnar, Fingraför spekinnar: Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum. Í kjölfarið munu Salvör Nordal og Hjalti Snær Ægisson bregðast við og eftir það verða almennar umræður.
Viðburðurinn er haldinn á vegum Miðaldastofu Háskóla Íslands í fyrirlestrasal Eddu, miðvikudaginn 11. desember og hefst kl. 16:30. Fyrirlesturinn fer fram á íslensku og er öllum opinn.
Síðsumars kom út bókin Fingraför spekinnar: Kaflar úr sögu íslenskrar heimspeki á miðöldum þar sem rakin eru spor eftir heimspekilega hugsun í miðaldaritum Íslendinga. Rannsóknin leiðir í ljós hugmyndir um heimspeki, beitingu heimspekilegra hugtaka og rökfærslur af heimspekilegum toga. Meðal annars er gerð tilraun til að skilja og túlka þá mynd af heimspekinni sem sjá má teiknaða í handritinu GKS 1812 4to, en einnig er rýnt í heimspekileg og siðfræðileg hugtök í Hómilíubókinni og Hávamálum, sem reynast vera gerólík. Þá eru heimspekilegar rökfærslur í formála Snorra-Eddu brotnar til mergjar og fyrri sjónarmið endurskoðuð. Jafnframt er gerð grein fyrir því með hvaða hætti alfræðileg hugsun birtist í handritum á borð við Hauksbók, þrátt fyrir að ekki sé hægt að kalla slík handrit alfræðirit, og þau sett í samband við lögmannsstarfið. Í lok bókarinnar er síðan gefið yfirlit um rannsóknir á siðfræði Íslendingasagna.
Gunnar Harðarson er prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Hann lauk á sínum tíma doktorsprófi í heimspekisögu frá Panthéon-Sorbonne háskólanum í París og hefur einkum kennt námskeið á sviði heimspekisögu og listheimspeki og jafnframt stundað rannsóknir á sögu heimspekinnar á Íslandi.
Gunnar Harðarson.