Skip to main content
26. nóvember 2024

Lognmolla í ólgusjó: Ný bók um íslensk stjórnmál og kosningar 

Lognmolla í ólgusjó: Ný bók um íslensk stjórnmál og kosningar  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvað virðist skipta mestu máli um það hvað fólk kýs? Er eitthvað að marka fylgiskannanir? Hvernig er með unga fólkið og stjórnmálin, hefur það engan áhuga á þeim? Er samræmi í skoðunum frambjóðenda og kjósenda? Er neikvæðni í kosningabaráttu að aukast? Og hvernig hefur þetta allt verið að breytast á undanförnum árum? Svörin við þessum og ýmsum fleiri spurningum fást í glænýrri bók um íslensk stjórnmál sem fimm manna stjórn Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS) var að senda frá sér og ber heitið Lognmolla í ólgusjó: Alþingiskosningarnar 2021 og kjósendur í áranna rás. Hún er ætluð öllum þátttakendum í íslenskum stjórnmálum, lærðum jafnt sem leikum, kjósendum jafnt sem frambjóðendum.

Bókin byggist á rannsóknum og kenningum en henni er þó ætlað að vera aðgengileg öllu áhugafólki um stjórnmál. Þetta er fyrst og fremst bók um kjósendur og þeirra viðhorf, áhuga, þátttöku og kosningahegðun. Hér finnur fólk svör við vangaveltum sem gjarnan eru ræddar í heitum pottum landsins.

Brugðið er mælistiku á pólitískt landslag á Íslandi eins og það birtist okkur í alþingiskosningunum 2021. Bókin lýsir þeim breytingum sem hafa orðið á íslenskum kjósendum og flokkum síðustu öldina, einkum frá 1983, en þá var Íslenska kosningarannsóknin framkvæmd í fyrsta skipti en hún hefur verið endurtekin við allar alþingiskosningar síðan. Þetta einstaka gagnasafn gefur færi á að greina breytingar síðustu 40 ára, til dæmis á flokkaflakki, flokkshollustu, stöðu flokka og kjósenda á vinstri‒hægri ás og afstöðu þeirra til margvíslegra málefna sem hafa mikil áhrif á það hvað fólk kýs. Breytingarnar eftir efnahagshrunið 2008 eru sérstaklega áhugaverðar því þær hafa fært með sér grundvallarbreytingar á íslensku flokkakerfi.

Höfundar bókarinnar, þau Hulda Þórisdóttir, Agnar Freyr Helgason, Eva H. Önnudóttir, Jón Gunnar Ólafsson og Ólafur Þ. Harðarson, eru öll fræðimenn við HÍ. Þau unnu bókina í sameiningu en Hafsteinn Einarsson er meðhöfundur að einum kafla. 

Mikið er rætt þessa dagana hvort eitthvað sé að marka fylgiskannanir. Heill kafli í bókinni er helgaður því viðfangsefni og varpar ljósi á hversu vel kannanir í aðdraganda undanfarinna kosninga hafa endurspeglað úrslit þeirra. Í lok bókarinnar er fjallað um unga fólkið og framtíð lýðræðisins út frá stjórnmálaþátttöku þess og viðhorfum til lýðræðis og málefna. 

Í bókinni má finna fjölbreytta umfjöllun um margt sem snýr að stjórnmálum í dag. Meðal annars er sjónum beint að breytingum á kosningahegðun almennings og stjórnmálaflokkum á Íslandi frá mótunarárum flokkakerfisins fyrir tæpum hundrað árum. Rýnt er í hvernig auglýsingar frá stjórnmálaflokkum hafa breyst yfir tíma og skoðað hvernig kjósendur fylgjast með kosningabaráttu nú á dögum. Eru allir að flykkjast á samfélagsmiðla og hlusta á hlaðvörp eða eru hefðbundu miðlarnir jafn vinsælir og áður? 

Þá er lagt mat á að hve miklu leyti vinsældir stjórnmálaleiðtoga einar og sér skili verulegu fylgi til stjórnmálaflokka eða hvort það sé flokkurinn og fyrir hvað hann stendur sem skiptir mestu máli. Enn fremur er fjallað um það hvernig kjósendur skipta um flokk milli kosninga en flokkaflakk er helsta skýringin á breytingum á gengi stjórnmálaflokka frá einum kosningum til þeirra næstu. Í bókinni er sjónum einnig beint að mögulegri gjá milli almennings og kjörinna fulltrúa, stjórnmálaviðhorfum kjósenda út frá ólíkum málefnaásum og skoðað hvort hrikti í stoðum lýðræðis á Íslandi um þessar mundir. 

Mikið er rætt þessa dagana hvort eitthvað sé að marka fylgiskannanir. Heill kafli í bókinni er helgaður því viðfangsefni og varpar ljósi á hversu vel kannanir í aðdraganda undanfarinna kosninga hafa endurspeglað úrslit þeirra. Í lok bókarinnar er fjallað um unga fólkið og framtíð lýðræðisins út frá stjórnmálaþátttöku þess og viðhorfum til lýðræðis og málefna. 

Kosningarnar 30. nóvember 2024 bar brátt að. Bókin var langt komin þegar þing var rofið og höfundum fannst mikilvægt að hún kæmi út fyrir kosningar og lögðust því á eitt við að ljúka verkefninu. Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni og er komin í rafræna sölu á vefsíðu útgáfunnar. Kaupendur rafrænu útgáfunnar geta hlaðið bókinni niður strax og byrjað að lesa og jafnframt nálgast prentað eintak eftir að bókin kemur úr prentun á næstu dögum. Hin landsþekkti fréttamaður Bogi Ágússon segir á bakhlið bókarinnar að hún sé ómissandi fyrir allt áhugafólk um stjórnmál. 

höfundar bókarinnar