Skip to main content
4. nóvember 2024

Tíu framúrskarandi kennarar teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna  

Tíu framúrskarandi kennarar teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna   - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tíu framúrskarandi háskólakennarar voru teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna á sérstakri athöfn sem fram fór í Veröld - húsi Vigdísar í Háskóla Íslands föstudaginn 1. nóvember.  Á fimmta tug kennara hefur verið tekinn inn í akademíuna frá upphafi. 

Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð árið 2021 með stuðningi frá stjórnvöldum. Akademían er að norrænni fyrirmynd og er markmið hennar að stuðla að samtali um kennslu og kennsluþróun innan og milli opinberu háskólanna. Ár hvert eru einstaklingar, sem skarað hafa fram úr í kennslu og kennsluþróun, teknir inn í Kennsluakademíuna sem alþjóðleg nefnd sérfræðinga í háskólakennslu metur á grundvelli umsóknar og viðtals.  Meðlimir Kennsluakademíunnar eiga það sameiginlegt að hafa allir verið mjög virkir í þróun kennsluhátta og brautryðjendur í nemendamiðuðum og virkum kennsluaðferðum. 

Fyrstu 11 meðlimir Kennsluakademíunnar voru teknir inn árið 2021, níu árið 2022 og alls fjórtán í fyrra. Í ár bætast alls 10 háskólakennarar við þennan glæsilega hóp. Það eru:  

  • Adeel Akmal, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands 
  • Brynja Þorgeirsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands 
  • Guðrún Ragnarsdóttir, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika Háskóla Íslands 
  • Guðrún Dröfn Whitehead, lektor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands 
  • Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands 
  • Harpa Stefánsdóttir, prófessor við Skipulags- og hönnunardeild Landbúnaðarháskóla Íslands 
  • Helga Ingimundardóttir, lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands 
  • Ragna Kemp Haraldsdóttir, dósent við Félagsfræði-, mannfræði og þjóðfræðideild Háskóla Íslands 
  • Steinunn Arnars Ólafsdóttir, lektor við Læknadeild Háskóla Íslands 
  • Úlf Viðar Níelsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Háskóli Íslands óskar nýjum meðlimum Kennsluakademíunnar innilega til hamingju með inngönguna.

Nýir meðlimir kennsluakademíunnar ásamt rektor Háskóla Íslands. Á myndina vantar Gunnar Þór Jóhannesson og Úlf Viðar Níelsson. MYND/Kristinn Ingvarsson