Góðar sögur dýpka með hverjum lestri
Aðalheiður Guðmundsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands, kennir hin geysivinsælu Íslendingasagnanámskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands í haust. Að þessu sinni verður það Völsunga saga sem verður lesin og greind og rædd í þaula.
Þetta er í fyrsta sinn sem Aðalheiður kennir á námskeiði hjá Endurmenntun HÍ og hún segist aðspurð hlakka mjög til að kenna á þessum nýja vettvangi. Á námskeiðinu verður Völsunga saga (frá 13. öld) lesin með hliðsjón af hetjukvæðum Eddu. Í hverjum tíma verður farið í efni nokkurra kafla auk þess sem fjallað verður um tilteknar söguhetjur og skapgerðareinkenni þeirra.
Stórir atburðir og miklar tilfinningar
Aðalheiður segir margt markvert við Völsunga sögu og þótt hetjukvæðin séu knöpp fjalli þau um stóra atburði og miklar tilfinningar. „Það er einmitt vegna þess hve knöpp þau eru sem við höfum, sem lesendur, rými til að ímynda okkur það sem hvergi er sagt berum orðum. Völsunga saga, sem er samin eftir kvæðunum, er orðfleiri, en heldur þó þessum eiginleikum að einhverju leyti og gefur okkur rými til að nálgast efnið með opnum og jafnvel frjóum huga. Eins og aðrar góðar miðaldasögur þá dýpkar hún með hverjum lestri. Söguheimurinn er margflókinn og eina stundina finnst okkur við vera stödd í ævintýri en fyrr en varir verða söguhetjurnar áþreifanlega mannlegar og breyskar og alls ólíkar ævintýrahetjum.“
Aðalheiður mælir með að áhugasöm um námskeiðið lesi Völsunga sögu áður en það hefst og rifji svo upp tiltekna kafla fyrir tímana. „Það er þó alls ekki nauðsynlegt. Sagan er ekki löng og við ættum að ráða vel við að lesa hana bara jafnóðum.“
Uppbygging kennslustundanna er þannig að fram að kaffi fer Aðalheiður í gegnum kaflana sem lesnir voru fyrir tímann en eftir hlé fer hún í tiltekið þema. „Þarna munum við takast á við ólík viðfangsefni sem standa okkur öllum nærri og ræða um ást, svik, sorgir, völd, græðgi og margt fleira. Ég hef kennt Völsunga sögu í námskeiðum mínum við HÍ en ætla mér að taka svolítið öðruvísi á henni hjá Endurmenntun HÍ, með blandaðri hóp í huga.“
Sköpum hliðarheim sem gefur aukna dýpt
Eins og mörg vita eru íslenskar miðaldabókmenntir heill heimur út af fyrir sig. Með því að lesa einstök verk eða læra um þau segir Aðalheiður að lesendur fái örlitla innsýn í þennan heim. „En eftir því sem við lærum meira og göngum lengra inn í hann þá verðum við okkur ekki einungis úti um þekkingu, heldur sköpum við okkur hliðarheim sem gefur lífinu aukna dýpt og innsýn í fortíðina, jafnt sem mannleg örlög og mannlegt eðli. Íslenskar bókmenntir fyrri alda eru fullar af óvæntum uppgötvunum og við erum enn að draga fram úr handritageymslunum sögur sem enginn hefur gefið út og varla nokkur lifandi maður lesið.“
Með mörg járn í eldinum
Aðalheiður er með mörg járn í eldinum og stór hluti af hennar vinnutíma fer í kennslu og í að leiðbeina meistara- og doktorsnema. Hún er einnig með tvö stór verkefni á borðinu, útgáfu á fornaldarsögum (Íslensk fornrit) og tvö síðari bindin af ritröðinni Arfur aldanna sem koma vonandi út innan fárra ára, en hún segir erfitt að segja á þessari stundu í hvaða röð.
Þá hefur Aðalheiður verið gestafyrirlesari eða skiptikennari við Fróðskaparsetur Føroya, háskólana í Kaupmannahöfn og Tartu, Háskólann í Rzeszow í Póllandi, Háskólann í Siena á Ítalíu, University College Dublin og nú síðast við Háskólann í Prag (Karlova).
„Hver háskóli er með sínu sniði og það er alltaf svolítið krefjandi að standa í fyrsta skipti í erlendum háskóla, ókunnri kennslustofu og fyrir framan ókunnan hóp en allar skilja þessar ferðir eftir sig eitthvað gott og gagnlegt. Þegar maður starfar sem háskólakennari held ég að það sé mjög mikilvægt að hafa þennan samanburð,“ segir Aðalheiður að lokum.
Hér eru allar nánari upplýsingar um námskeiðin þrjú í haust.