Ragnheiður Bragadóttir hlýtur norrænu lögfræðiverðlaunin
Ragnheiður Bragadóttir, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, hlaut í dag norrænu lögfræðiverðlaunin fyrir merkar rannsóknir sínar í refsirétti og afbrotafræði, einkum á sviði kynferðisafbrota og annarra afbrota gegn konum og börnum. Í umsögn um verðlaunin kemur fram að Ragnheiður hafi einnig beint sjónum að samfélagslegum glæpum í rannsóknum sínum og að íslenskum refsirétti og hljóti verðlaunin fyrir verðskuldað framlag innan rannsóknarsamfélagsins á sviði lögfræði.
Það var forseti Hæstaréttar Danmerkur, Jens Peter Christensen, sem veitti verðlaunin að þessu sinni en þau eru kennd við Knut og Alice Wallenberg stofnunina. Verðlaunaféð er 1.000.000 sænskar krónur. Verðlaunin voru veitt í tengslum við norræna fundi lögfræðinga sem haldnir eru á þriggja ára fresti í einni af höfuðborgum Norðurlanda, í þetta sinn í Kaupmannahöfn.
Samkvæmt reglum um verðlaunin eru þau einungis veitt norrænum lögfræðingum fyrir framúrskarandi störf á sviði lögfræði eða vegna fræðistarfa á sama vettvangi.
Johan Hirschfeldt, sem er formaður lagarannsóknastofnunarinnar sem stendur að verðlaununum, sagði við afhendinguna í Kaupmannahöfn í dag að brýnt framlag Ragnheiðar eigi jafnt við um norrænan vettvang og alþjóðlegan. Hirschfeldt var dómsmálaráðherra Svía árin 1992 til 1996 og forseti áfrýjunardómstólsins sænska.
Lagarannsóknastofnunin, sem var stofnuð af Knut og Alice Wallenberg stofnuninni, tilnefnir verðlaunahafa að fengnum tillögum lögfræðinganefnda frá öllum norrænu ríkjunum. Einungis einu sinni áður hefur Íslendingur hlotið verðlaunin en þau hlaut Ármann Snævarr, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands, árið 1993.