Skip to main content
21. ágúst 2024

Varði doktorsritgerð um beygingarbreytingar í málsögu

Varði doktorsritgerð um beygingarbreytingar í málsögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Símon Markússon hefur varið doktorsritgerð í íslenskri málfræði, Icelandic and Faroese: A usage-based cognitive analysis of morphological change, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. 

Andmælendur við vörnina voru Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor við menningarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Christer Lindqvist, prófessor í norrænum málum og málvísindum við Háskólann í Greifswald. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Þórhalls Eyþórssonar, prófessors . Einnig voru í doktorsnefnd Hjalmar P. Petersen, prófessor við Fróðskaparsetur Færeyja, og Katrín Axelsdóttir, dósent við Háskóla Íslands

Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands 14. ágúst.

Um rannsóknina

Ritgerð Jóns Símons byggist á þremur rannsóknum sem varpa ljósi á hugrænar forsendur fyrir stefnu beygingarbreytinga í íslenskri og færeyskri málsögu. Hugræn nálgun á málþróun (e. usage-based cognitive approach) gerir þáttum eins og tíðni og áhrifum hennar á stefnu málbreytinga hátt undir höfði. Í ritgerðinni er gert ráð fyrir að það sem kemur oftar fyrir í málinu sé rótfastara (e. entrenched) í minni og þar með er notkun þess nærtækari en það sem sjaldgæfara er. Jón Símon sýnir fram á að tíðni stuðli –– að öllu jöfnu –– að formlegri nýjung í samræmi við algengari mynstur þegar minnið bregst og markmyndin eða markmynstrið er ekki í boði. Þó er einnig ljóst að takmarkað opnustig skema (e. low schematicity) getur stuðlað að virkni beygingarmynsturs sem hefur lága tíðni með því að laða að orðmyndir sem líkjast meðlimum viðkomandi beygingarflokks hljóðfræðilega. Einnig er sýnt fram á að algengari beygingarmyndir orðs eru valdar sem grunnmyndir (e. base forms) þegar beygingardæmi þess verður fyrir útjöfnun (e. levelling). Þó getur val á grunnmynd skekkt mynstrið sem til verður þannig að ólíkar stofnmyndir fara að tjá sömu merkingu, þvert á tilhneigingu í tungumálum heims til að jafna út beygingarvíxl með því að koma á sambandi milli tiltekins forms við ákveðna merkingu. Þannig stuðlar útjöfnun stundum óbeint að tilraun til að greina beygingarmyndir formlega að þegar þær tjá andstæða merkingu.

Þar sem ýmsar hugrænar forsendur eru fyrir beygingarvirkni sýna rannsóknirnar þrjár að virkni beygingarmynstra er ekki annaðhvort/eða-fyrirbæri í anda málkunnáttufræðinnar. Talsmenn þeirrar nálgunar hafa lengi lagt „regluleika“ og virkni að jöfnu og líta svo á að hið „reglulega“ verði leitt af orðasafnsmyndum (e. lexical forms) með táknrænum reglum (e. symbolic rules) en aftur á móti sé það sem lýtur ekki að reglulegu mynstri sótt í heilu lagi beint úr svokölluðu orðasafni (e. lexicon). Af rannsókninni er ljóst að mynstur geta verið misvirk eftir því hve mörg orð fylgja þeim og hversu lík orðin eru hljóðfræðilega. Niðurstaða Jóns Símons er sú að beygingarvirkni stafi af beitingu almennra hugrænna ferla eins og útvíkkunar hliðstæðrar þekkingar (e. analogy) og flokkunar (e. categorisation), sem hvor tveggja er háð því að öll fyrri málleg reynsla geymist í minni.

Um doktorinn

Jón Símon Markússon er með BA-próf í íslensku frá University College, London og MA-gráðu í íslenskri málfræði frá Háskóla Íslands. Hann kennir íslensku sem annað mál við HÍ.

Katrín Axelsdóttir, Gauti Kristmannsson, Jón Símon Markússon, Christer Lindqvist og Ólöf Garðarsdóttir.