Skip to main content
14. ágúst 2024

Námskeið um sjávarútveg og eldi opið nemendum í ýmsum greinum

Námskeið um sjávarútveg og eldi opið nemendum í ýmsum greinum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Sjávarútvegur hefur um aldir verið ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og fiskeldi hefur vaxið mjög sem atvinnugrein á undanförnum árum. Sjávarútvegur og fiskeldi eru orðin hátækniatvinnugreinar þar sem nýsköpun og tækniþróun er allsráðandi. Nú í haust mun Háskóli Íslands bjóða upp á námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi og eldi og er það opið og getur nýst fjölbreyttum hópi nemenda. 

Námskeiðið hefur verið kennt undanfarin á sem Rekstur í sjávarútvegi en nú hefur eldi fengið aukinn sess í kennslunni. Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild, er umsjónarkennari námskeiðsins en með henni kenna Ágúst Einarsson og Sigurjón Arason, prófessorar emeritus. 

Í námskeiðinu fá nemendur yfirsýn yfir helstu þætti er varða rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, starfsumhverfi þeirra, tækifæri og afkomu og hvernig sjávarútvegur og fiskeldi tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Farið verður yfir sögu og þróun á Íslandi undanfarna áratugi, þróun fiskveiðistjórnunar og kvótakerfið. Þá verður fjallað um mikilvægi fiskeldis, bæði sjókvíaeldi og landeldi, afurðir, vinnsluleiðir, sölu- og markaðssetningu og hvað þarf til þess að ná árangri og hvernig íslenskur sjávarútvegur og eldi getur náð að vera í hillum verslana alla daga ársins. Enn fremur verður farið yfir hvaða tækifæri í atvinnugreininni og tæknibreytingar, gervigreind, umhverfismál og nýsköpun verða í brennidepli. 

Námskeiðið er í nánu samstarfi við fyrirtæki, ráðuneyti og stofnanir í sjávarútvegi og vinna nemendur raunhæf verkefni í samvinnu við fyrirtæki í greininni. Samstarfsaðilar Viðskiptafræðideildar eru: Brim, Fisk, Ísfélag Vestmannaeyja, Ice Fresh, Íslandsstofa, Matvælaráðuneytið, Marel, Marine Collagen, Samherji, Síldarvinnslan, Sjávarklasinn, Vinnslustöðin og Vísir. Farið er í tvær fyrirtækjaheimsóknir í námskeiðinu. Stjórnendur hjá Brimi taka á móti nemendum og Samherji fiskeldi á Suðurnesjum. 

Námskeiðið stendur nemendum á þriðja á ári í grunnnámi og öllum í framhaldsnámi í Háskóla Íslands til boða, til að mynda í greinum eins og viðskiptafræði, hagfræði, verkfræði, líffræði, matvælafræði, félagsfræði, umhverfis- og auðlindafræði og lögfræði. Það er hugsað fyrir þau sem vilja öðlast skilning á helstu þáttum og forsendum íslensks sjávarútvegs og eldis og þýðingu og áhrifum þessara atvinnugreina á íslenskt hagkerfi. Námskeiðið sameinar hagnýta og fræðilega þekkingu á sviði sjávarútvegsfræða. 

Námskeiðið er í nánu samstarfi við fyrirtæki, ráðuneyti og stofnanir í sjávarútvegi og vinna nemendur raunhæf verkefni í samvinnu við fyrirtæki í greininni. Auk þess er farið í fyrirtækjaheimsóknir í námskeiðinu.

„Námskeiðið hentar nemendum á fjölmörgum sviðum og nemendahópurinn hefur alltaf verið mjög fjölbreyttur því að sjávarútvegur og eldi tengjast svo mörgum þáttum samfélagsins. Það skiptir ekki máli hvort litið er til viðskiptafræði eða hagfræði og þá til sölu- og markaðsmála, fjármála, greininga, stjórnunar eða gæðamála. Nýsköpun, sjálfbærni og umhverfismál eru einnig afar mikilvæg þegar rætt er um sjávarútveg og eldi að ógleymdri tækni, líffræði og ýmsu öðru og því hentar þetta námskeið öllum þeim sem vilja fá innsýn inn í sjávarútveg og  eldi enda fjölmörg tækifæri í þessum atvinnugreinum fyrir áhugasama nemendur,“ segir Ásta Dís.

Nokkur ummæli nemenda:

„Ég verð að mæla með þessu frábæra námskeiði, en ég sat það árið 2018. Langsamlega besti kúrsinn í meistaranáminu mínu sem var stútfullur af gestafyrirlesurum með virkilega áhugaverð erindi og ekki skemmdu vettvangsferðirnar fyrir. Afar vel skipulagt námskeið hjá Ástu Dís og frábært að sjá að það er aftur komið á dagskrá.“
 
„Mæli hiklaust með námskeiðinu Rekstur í sjávarútvegi, ég sat það í meistaranáminu 2021. Þá fengum við djúpa innsýn inní heim sjávarútvegsins. Ég hef mikinn áhuga á fullnýtingu hliðarafurða og var skemmtilegt að fá að fylgjast með gífurlegri nýsköpun sem á sér stað hér á Íslandi og er eitthvað sem við megum vera stolt af. Skemmtilegir gestafyrirlesarar og áhugaverð verkefni. Mæli hiklaust með fyrir alla sem vilja kynna sér sjávarútveginn frá öllum hliðum.“

„Langbesta námskeið sem ég hef setið við Háskóla Íslands. Frábært að það verði kennt áfram!“
 
 „Rekstur í sjávarútvegi og eldi er frábært námskeið í alla staði!  Mikill metnaður er lagður í námskeiðið og ég mæli svo sannarlega með því fyrir alla! Þar kynnast nemendur ótal tækifærum sem sjávarútvegur hefur upp á að bjóða“    

Nánari  upplýsingar um námskeiðið má finna í kennsluskrá HÍ.

Nemendur í námskeiðinu við togara