Skip to main content
30. júní 2024

Kenndu stjórnmálafræðinemum að stýra eigin starfsferli

Kenndu stjórnmálafræðinemum að stýra eigin starfsferli - á vefsíðu Háskóla Íslands

Stjórnmálafræðideild bauð nú á vormisseri upp á nýtt skyldunámskeið í samstarfi við Nemendaráðgjöf skólans þar sem nemendur, sem eru að útskrifast með BA-gráðu í greininni, fengu innsýn í þau fjölbreyttu starfstækifæri sem geta beðið stjórnmálafræðinga og hvernig best er að stýra eigin náms- og starfsferli til framtíðar. Deildin er sú fyrsta innan skólans til að taka slíkt námskeið upp og mæltist það afar fyrir vel meðal nemenda. Námskeiðið kallast einnig á við áherslur í stefnu skólans, HÍ26, þar sem eitt markmiðanna er að efla starfshæfni stúdenta.

„Í sumum námsleiðum sem Háskóli Íslands býður upp á er fólk oftast að mennta sig til tiltekinna starfa eða inn í ákveðnar starfsstéttir til framtíðar en í öðrum liggja tækifærin á ólíkum starfssviðum og það er mikilvægt að benda nemendum á það,“ segir Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Nemendaráðgjöf HÍ sem hafði faglega umsjón með námskeiðinu sem ber heitið „Stýrðu starfsframa þínum: menntun, atvinnulíf og starfsþróun fyrir stjórnmálafræðinga“. „Nemendaráðgjöf HÍ fagnar þessu samstarfi og framtaki Stjórnmálafræðideildar. Það er mikilvægt að nemendur útskrifist með vitneskju um hvernig þeir geti nýtt menntun sína,“ bætir Jónína við. 

Frumkvæðið að námskeiðinu kom frá Agnari Frey Helgasyni, dósent og þáverandi deildarforseta Stjórnmálafræðideildar. „Við vinnslu sjálfsmatsskýrslu fyrir deildina kom í ljós að nemendur áttuðu sig ekki nógu vel á því hvaða möguleikar biðu þeirra að loknu námi. Til þess að bregðast við því ákváðum við að bæta þessu skyldunámskeiði við á lokaári BA-námsins. Þarna fá nemendur gott tækifæri til að búa sig undir það sem tekur við að lokinni útskrift, hvort sem það er atvinnuleit eða leit að framhaldsnámi,“ segir Eva H. Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild og umsjónarkennari námskeiðsins. 

Nemendur fengu m.a. heimsókn frá fyrrverandi nemendum í stjórnmálafræði sem ræddu um hvernig námið hefur nýst þeim. Þeirra á meðal voru María Hrund Marinósdóttir, sem rekur Móðurskipið, umboðsstofu fyrir leikara, fyrirlesara og annað hæfileikafólk úr margvíslegum listgreinum, og Oddur Þórðarson sem starfar í erlendum fréttum á fréttastofu RÚV. MYND/Kristinn Ingvarsson

Nemendur sóttu tíma í námskeiðinu einu sinni í viku og meðal verkefna þeirra var að halda dagbók, vinna ferilskrá, sækja viðburði á Atvinnudögum Háskólans og útbúa ferilmöppu. „Það er tæki sem gefur fólki færi á að fá yfirsýn yfir náms- og starfsferilinn og safna gögnum sem sýna fram á færni, hæfni og styrkleika. Segjum sem svo að styrkleikar þínir liggi á sviði teymisvinnu, þá leggurðu inn í ferilmöppuna verkefni sem undirstrikar þá færni þína,” útskýrir Jónína.

Eva Heiða bætir við að í tvígang hafi nemendur fengið fólk með stjórnmálafræðimenntun í heimsókn í tíma og þau rætt um hvernig námið hefur nýst þeim. Þeirra á meðal voru María Hrund Marinósdóttir, sem rekur Móðurskipið, umboðsstofu fyrir leikara, fyrirlesara og annað hæfileikafólk úr margvíslegum listgreinum, og Oddur Þórðarson sem starfar í erlendum fréttum á fréttastofu RÚV. Þá komu fulltrúar frá Fulbright-stofnuninni í tíma og kynntu möguleika á framhaldsnámi í Bandaríkjunum. 

„Þarna erum við að kenna nemendum að pæla í starfsþróun sinni, hvað hefur gerst og breyst á meðan þau hafa stundað háskólanám og færa þeim í hendur verkfæri til að koma sér á framfæri. Um leið efla þau fagvitund sína og átta sig á þeim fjölbreyttu tækifærum sem bjóðast fólki með stjórnmálafræðimenntun,“ segir Jónína.

Alls sóttu þrettán nemendur námskeiðið í þetta fyrsta sinn og það er komið til að vera. „Við sjáum það í umsögnum nemenda að þau kunnu að meta námskeiðið og sáu gagnsemi þess. Þau sögðust auk þess átta sig betur á styrkleikum sínum,“ segir Eva Heiða að endingu.

Eva H. Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, og Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Nemendaráðgjöf HÍ,

Eva H. Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild, og Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Nemendaráðgjöf HÍ, kenndu námskeiðið nýja. MYND/Kristinn Ingvarsson