Skip to main content
30. maí 2024

Kynntist ótrúlega mörgu fólki á fyrstu dögum skiptinámsins

Kynntist ótrúlega mörgu fólki á fyrstu dögum skiptinámsins - á vefsíðu Háskóla Íslands

Eydís Sigrún Jónsdóttir lauk meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá HÍ í febrúar síðastliðnum. Hún fór í skiptinám í Copenhagen Business School (CBS) haustið 2022 og var eina önn en segist sjá eftir því að hafa ekki verið heilt ár. Hún svaraði nokkrum spurningum um skiptinemadvölina.

Hvernig var dæmigerður dagur úti? 

Dæmigerður dagur byrjaði frekar rólegur heima á kollegiinu, svo var bara rölt í skólann, annað hvort í tíma eða á bókasafnið að læra. Ég var svo heppin að fá herbergi á Nimbusparken sem er í göngufæri frá CBS. Þegar við gátum hittumst við vinkonurnar í aðalbyggingunni og fengum okkur hádegismat, lærðum aðeins á bókasafninu og fórum svo að gera eitthvað skemmtilegt, fórum í bæinn, í music bingo, máluðum keramik í Creative Space eða kíktum í verslunarmiðstöðina, Frederiksberg Center, sem er við hliðina á Solbjergs Plads, aðalbyggingu CBS. 

cbs

Hvað fannst þér eftirminnilegast/mest spennandi?

Það sem var eftirminnilegast voru eiginlega fyrstu dagarnir, að sitja allt í einu ein í öðru landi og kynnast rosalega mörgu fólki á nokkrum dögum og vera innan tveggja vikna vera búin að mynda alveg ómetanleg vinasambönd við nýja vini. Það var líka bara svo gaman að komast inn í annan lífsstíl, labba allt og taka neðanjarðarlestina og vera eldsnögg að komast yfir í annan hluta bæjarins á einhverja geggjaða veitingastaði, tónleika eða í aðra skemmtun. 

Hvað fannst þér lærdómsríkast úti?

Lærdómsríkast var að kynnast fólki frá öllum mögulegum heimshlutum, ólíkum menningarheimum og löndum. Líka að prófa að stunda nám við skóla sem er ólíkur HÍ, læra af samnemendum sem voru ýmist danskir eða skiptinemar eins og ég og bara að búa annars staðar en á Íslandi. 

Hvað var skemmtilegast við að fara út? 

Bara að búa í Kaupmannahöfn, ég hafði farið þangað nokkrum sinnum en þarna kynntist ég henni á allt annan hátt og hún á í dag alveg sérstakan stað í hjarta mínu!

Kynnistu mörgum?

Já, ég kynntist fullt af fólki og eignaðist mjög góðan og náinn vinkonuhóp. Við erum flest í einhverju sambandi, einhverjum fylgist maður bara með á samfélagsmiðlum en ég á tvær mjög góðar vinkonur úr skiptináminu og við höfum náð að hittast nokkrum sinnum og þær eru væntanlegar til Íslands í september!

"Það sem var eftirminnilegast voru eiginlega fyrstu dagarnir, að sitja allt í einu ein í öðru landi og kynnast rosalega mörgu fólki á nokkrum dögum og vera innan tveggja vikna vera búin að mynda alveg ómetanleg vinasambönd við nýja vini."

Hvað var erfitt?

Það var erfitt að skilja kærastann eftir á Íslandi en samt auðveldara en ég hefði haldið, hann var duglegur að koma út og það var bara heilög Facetime-stund öll kvöld. Það kom mér eiginlega á óvart hvað það var lítið erfitt við þetta. Fyrstu vikurnar voru erfiðar en ég fékk svo geggjað ráð frá vinkonu minni sem hafði farið í skiptinám. Eitt kvöldið í fyrstu vikunni langaði mig eiginlega bara að koma heim og hún sagði mér að það væri stranglega bannað að hugsa um það nema gefa þessu þrjár vikur, það væri tíminn sem það tæki að kynnast einhverjum og aðlagast aðeins. Hún spurði mig svo að þremur vikum liðnum hvernig staðan væri og ég var eiginlega búin að gleyma samtalinu okkar og vissi eiginlega ekkert hvað hún var að meina, svo hún hafði 100% rétt fyrir sér. 

Hvað saknaðirðu frá Íslandi?

Auðvitað fjölskyldu og vina sem er auðvitað gefið en ég saknaði þess rosalega að fara í sund! Ég fór alveg í sund úti en það var ekki jafn næs og hér heima. 

eydis og vinkonur

Hvers saknarðu mest núna frá skiptinámslandinu?

Það væri eiginlega auðveldara að segja frá því hvers ég sakna ekki! Ég sakna hverfisins míns, pizzasamlokunnar á Piccolino’s, sakna þess mikið að labba allt og taka neðanjarðarlestina, auðvitað vinkvenna minna en líka bara andrúmsloftsins í Köben. Já og veðursins, sérstaklega svona í haustveðrinu sem er þessa dagana. 

Eydís ásamt vinkonum sínum í Kaupmannahöfn.