Doktorsvörn í líffræði - Guðrún Óskarsdóttir
Aðalbygging
Hátíðasalur
Doktorsefni:
Guðrún Óskarsdóttir
Heiti ritgerðar:
Viðgangur og vistfræði nýs birkistofns (Betula pubescens ssp. tortuosa) á Skeiðarársandi
Andmælendur:
Dr. Carissa D. Brown, prófessor við Memorial háskólann á Nýfundnalandi, Kanada
Dr. Philip A. Wookey, prófessor við Háskólann í Stirling, Skotlandi
Leiðbeinendur:
Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, Dr. Kristín Svavarsdóttir, plöntuvistfræðingur hjá Landi og skógi.
Einnig í doktorsnefnd:
Dr. James D. M. Speed, prófessor við NTNU háskólann í Noregi
Stjórnandi varnar:
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor og deildarforseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands
Ágrip:
Ilmbjörk (Betula pubescens ssp. tortuosa) nam skyndilega land á Skeiðarársandi um 1990, eftir að fræ hafði dreifst um 10 km leið frá Bæjarstaðarskógi og finnst nú á >35 ferkílómetra svæði. Markmið verkefnisins var að nýta einstakt tækifæri til að greina afdrif, viðgang og þróun fyrstu kynslóða einangraðs stofns í nýju umhverfi og bera saman við stofna í Skaftafelli og Morsárdal. Í upphafi rannsóknarinnar hafði stofninn nýlega náð kynþroska. Aðeins 2,7% fræja voru lífvænleg, einna helst vegna þess að þrátt fyrir að vera ógreinanleg frá fylltum fræjum var þorri þeirra án kímplöntu. Fræ úr Morsárdal/Skaftafelli höfðu lægra hlutfall tómra fræja. Þroskunarferli þessara tómu fræja virðist endurspegla sóun auðlinda af hálfu móðurplöntunnar en mögulegar þroskunarfræðilegar, vistfræðilegar og þróunarfræðilegar skýringar eru settar fram og metnar. Um 20–55% fræja voru sýkt af birkihnúðmýi (Semudobia betulae) og því dauð. Fræframleiðsla á Skeiðarársandi var þó nægileg til að skila 0,5–75,9 spírunarhæfum fræjum á fermetra. Spírun var hlutfallslega mest í þunnum mosa. Lifun kímplantna var mjög há, oftast >50% fyrstu 1–2 árin, en ekki var marktækur munur á lifun milli yfirborðsgerða. Samanburður gagna frá árunum 2008 og 2018 sýndi verulegan framgang birkistofnsins á Skeiðarársandi en á óvart komu sterkar vísbendingar um að svæðisbundinn breytileiki væri að þróast, m.a. í vaxtarformi, stærðardreifingu, blómgun og nýliðun. Ræddar eru tvær tilgátur til að skýra þennan breytileika: Að þrátt fyrir að Skeiðarársandur sýnist einsleitur, búi hann yfir svæðisbundnum breytileika og því ólíkum skilyrðum fyrir vöxt birkis og hins vegar að breytileikann megi rekja til svæðisbundins munar í arfleifð landnemakynslóðarinnar.
Um doktorsefnið:
Guðrún fæddist í Reykjavík árið 1989. Hún lauk BS-gráðu í landgræðslu frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2012 og MS-gráðu í náttúru- og umhverfisfræði við sama háskóla árið 2014. Frá árinu 2015 hefur hún starfað sem plöntuvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað og frá 2018 hefur hún stundað doktorsnám í plöntuvistfræði við Háskóla Íslands.
Doktorsefnið Guðrún Óskarsdóttir