Blaðamennska í boði í grunnnámi næsta haust
„Fáir draga í efa mikilvægi faglegra ritstýrðra og sterkra fjölmiðla í lýðræðislegum samfélögum. Það er mikilvægt að efla fagið og vitund fólks um mikilvægi þess og við vinnum náið með Blaðamannafélagi Íslands (BÍ) að því markmiði,“ segir Valgerður Jóhannsdóttir, dósent og umsjónarmaður nýs hagnýts BA-náms í blaðamennsku sem verður í boði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands frá og með haustinu 2024. Námið er hugsað fyrir öll þau sem hafa áhuga á að starfa við hvers kyns fjölmiðlun í framtíðinni og nemendum býðst m.a. að fara í skiptinám á vegum námsleiðarinnar.
Aðspurð fyrir hverja námið sé stendur ekki á svari hjá Valgerði: „Þetta er nám fyrir allt ungt fólk sem er forvitið um samfélag sitt og vill varpa ljósi á það sem þar gerist. Blaðamennska er mjög fjölbreytt svið og námið er fyrir öll þau sem hafa áhuga á fólki, fréttum og þjóðfélagsmálum í víðum skilningi, stjórnmálum, umhverfismálum, viðskiptum, jafnrétti, dægurmenningu, íþróttum eða hverju því sem fólk tekur sér fyrir hendur. Og þetta er nám fyrir þau sem hafa áhuga á að skapa og miðla efni á alls konar miðlum, í texta, hljóði eða myndum og vill verða betra í því.“
Stjórnmálafræðideild hefur um árabil boðið upp á nám í blaða- og fréttamennsku á meistarastigi en að sögn Valgerðar eru ýmsar ástæður fyrir því að námið var flutt yfir á BA-stig, m.a. ákall frá Blaðamannafélaginu um fleiri menntaða blaðamenn og viðleitni til að færa námið nær því sem gerist í nágrannalöndunum og skapa fleiri tækifæri fyrir nemendur. „Nám í blaðamennsku er kennt á grunnstigi víðast í löndum í kringum okkur og nær eingöngu annars staðar á Norðurlöndum. Möguleikar nemenda á skiptinámi stóraukast því við þessa breytingu,“ segir Valgerður.
Námskeið um gervigreind í fréttavinnslu, falsfréttir og gagnalæsi og -miðlun
Megináherslurnar og -viðfangsefnin verða þó áfram þau sömu að sögn Valgerðar en námskeiðin og kröfur lagaðar að nemendum í grunnnámi. „Það er fjallað um stöðu og hlutverk fjölmiðla, um íslensk stjórnmál og stjórnskipan og áhersla lögð á að þjálfa nemendur í að beita aðferðum blaðamanna við að afla upplýsinga, greina þær og miðla þeim á faglegan hátt,“ segir Valgerður.
Þá á að auka veg íslenskunnar í náminu. „Íslenskt mál, talað og skrifað, er aðalverkfæri allra blaðamanna og mikilvægt að vanda til verka þar. Við þurfum líka alltaf að vera á tánum þegar kemur að tæknibreytingum og áhrifum þeirra á fagið og notkun gervigreindar á fréttastofum er eitt af nýjum viðfangsefnum í náminu, svo dæmi sé nefnt,“ bætir Valgerður við.
Auk ofangreinds geta nemendur m.a. sótt námskeið sem snúa að gagnalæsi og framsetningu gagna, grundvallaratriðum í vinnslu efnis fyrir ólíka miðla og falsfréttum, upplýsingaóreiðu og stjórnmálum.
Nemendur læra þannig að miðla upplýsingum á traustan hátt í alls kyns miðla, á vef, samfélagsmiðlum, í útvarpi, hlaðvarpi, sjónvarpi eða á prenti. „Áherslan er mest á miðlun á stafrænu formi, einkum á vef, í texta, mynd og hljóði,“ undirstrikar Valgerður.
„Nemendur fá umfangsmikla verklega kennslu og þjálfun á tæki og hugbúnað sem blaðamenn nota. Veigamikill hluti af náminu felst einnig á starfsþjálfun á fjölmiðlum og þess vegna verðum við að takmarka fjöldann sem tekinn er inn ár hvert við 20 nemendur. Það er líka lögð áhersla á að hafa „alvöru“ verkefni og nemendur skrifa greinar og búa til hljóð- og myndefni sem er birt á fréttasíðu eða samfélagsmiðlum námsins eða öðrum fjölmiðlum þegar svo ber undir,“ segir Valgerður Jóhannsdóttir.
Nemendur velja aukagrein með náminu
Nám til BA-gráðu í háskólum er alla jafna 180 einingar en BA-námið í blaðamennsku er 120 einingar og því þurfa nemendur að taka aukagrein með henni til að útskrifast frá Háskóla Íslands. „Aukagrein getur verið af hvaða fræðasviði sem er innan HÍ. Viðfangsefni blaðamanna eru óskaplega fjölbreytt: vísindi, heilbrigðismál, pólitík, efnahagsmál, tónlist, bókmenntir, íþróttir og svona mætti lengi telja. Það er um að gera fyrir nemendur að velja sér aukagrein út frá eigin áhugasviði. Þau sem hafa t.d. mestan áhuga á því að fjalla um pólitík og þjóðfélagsmál geta t.d. valið stjórnmálafræði sem aukagrein. Þau sem hafa einkum áhuga á því að fjalla um menningarmál gætu viljað fara í bókmenntafræði eða kvikmyndafræði. Þau sem hafa brennandi áhuga á erlendum fréttum og heimsmálunum geta skoðað t.d. sagnfræði, nú eða Mið-Austurlandafræði. Möguleikarnir eru óteljandi,” segir Valgerður.
Mikil áhersla á verklega þjálfun og starfsþjálfun
Mikil áhersla er á verklega þætti í náminu. „Nemendur fá umfangsmikla verklega kennslu og þjálfun á tæki og hugbúnað sem blaðamenn nota. Veigamikill hluti af náminu felst einnig á starfsþjálfun á fjölmiðlum og þess vegna verðum við að takmarka fjöldann sem tekinn er inn ár hvert við 20 nemendur. Það er líka lögð áhersla á að hafa „alvöru“ verkefni og nemendur skrifa greinar og búa til hljóð- og myndefni sem er birt á fréttasíðu eða samfélagsmiðlum námsins eða öðrum fjölmiðlum þegar svo ber undir,“ segir Valgerður enn fremur.