Geirfuglabók Gísla fær lofsamlega dóma í Science
Ensk útgáfa bókar Gísla Pálssonar, prófessors emeritus í mannfræði, um aldauða geirfuglsins fær lofsamlega dóma í nýjasta hefti hins virta vísindatímarits Science. Bókin kom út í Bandaríkjunum fyrir skemmstu og þá hefur verið samið um útgáfu hennar víðar um heim.
Bók Gísla, sem ber heitið „Fuglinn sem gat ekki flogið“, kom út á vegum Forlagsins haustið 2020 og vakti feiknamikla athygli. Bókin byggist á ítarlegum rannsóknum Gísla á gögnum og skjölum um afdrif geirfuglsins, þar á meðal á svonefndum Geirfuglabókum sem er að finna í bókasafni Cambridge-háskóla. Þær hafa að geyma frásagnir tveggja breskra náttúrufræðinga, John Wolley and Alfred Newton, sem sigldu hingað til lands árið 1858 til að leita þessa ófleyga fugls. Þeir fundu hins vegar enga fugla enda er talið að síðustu tveir geirfuglarnir af tegundinni hafi verið drepnir fyrir réttum 180 árum, sumarið 1844, í Eldey.
Þeir Wolley og Newton áttu í ferð sinni ítarleg viðtöl við fuglaveiðimenn á Suðurnesjum og frásagnir þeirra er að finna í Geirfuglabókunum. Meðal annars vegna þessa teljast bækurnar einstök heimild um endalok dýrategundar. „Þetta eru um níu hundruð handskrifuð blöð í fimm heftum, eins konar Flateyjarbók geirfuglsins, geymd á Bókasafni Cambridge-háskóla og aðeins til í einu eintaki. Engin viðlíka heimild er til um aðra útdauða tegund,“ sagði Gísli á í viðtali á vef HÍ þegar „Fuglinn sem gat ekki flogið“ var að koma út.
Enska útgáfan ítarlegri
Ensk útgáfa bókarinnar, „The Last of Its Kind: The Search for the Great Auk and the Discovery of Extinction“, kom út í upphafi febrúarmánaðar í Bandaríkjunum á vegum Princeton University Press. Útgáfuna má rekja til þess að Gísli komst í samband við umboðsmann í New York. „Ég sendi henni ítarlega lýsingu á verkinu með sýnishornum. Hún efndi síðan til uppboðs á netinu þar sem nokkur forlög sýndu áhuga. Princeton bauð best og hefur einkarétt til útgáfu bókarinnar á ensku,“ segir Gísli.
Aðspurður segir hann ensku útgáfuna töluvert ólíka þeirri íslensku. Hún er mun lengri og hugsuð fyrir alþjóðlegan markað. „Sumt af íslenska efninu var tekið út en við bættist meiri umfjöllun um Cambridge-handritin sem voru skrifuð á Íslandi og þýðingu þeirra fyrir uppgötvun aldauða af mannavöldum. Ég lagðist í frekari rannsóknir til að styðja betur þá niðurstöðu að leiðangurinn og starf náttúrufræðingsins Alfreds Newtons hefðu markað tímamót í umræðu um náttúruvernd og aldauða,” segir Gísli.
Enn fremur segir hann frásagnarhættinum í bókinni hafa verið breytt töluvert. „Höfundur fær meira pláss í sögunni og almennar vangaveltur, m.a. um leiðangra, náttúrufræði, aldauða og tegundarhugtakið eru fléttaðar inn á milli kafla og kaflahluta um geirfuglinn, Íslandsleiðangur bresku fuglamannanna 1858 og fólkið sem tók þátt í honum beit og óbeint,” segir Gísli og bætir við að Anna Yates hafi þýtt upphaflega textann á ensku og Nancy Marie Brown annast efnislega ritstjórn á lokametrunum.
Bókin byggist á ítarlegum rannsóknum Gísla á gögnum og skjölum um afdrif geirfuglsins, þar á meðal á svonefndum Geirfuglabókum sem er að finna í bókasafni Cambridge-háskóla. Þær hafa að geyma frásagnir tveggja breskra náttúrufræðinga, John Wolley and Alfred Newton, sem sigldu hingað til lands árið 1858 til að leita þessa ófleyga fugls.
Heillandi, mikilvægt og tímabært verk
Geirfuglinn hefur um langt skeið og víða verið tákn fyrir tegundir í útrýmingarhættu og þau áhrif sem maðurinn getur haft á lífríkið með rányrkju sinni. Því er ekki að undra að bók um þennan merkilega fugl veki athygli utan landsteinanna. Í umfjöllun um bókina í nýjasta hefti hins virta tímarits Science er stiklað á stóru um efni bókarinnar og hvaða þýðingu aldauði geirfuglsins hafði fyrir hugmyndir manna um fugla- og dýravernd. „The Last of Its Kind er heillandi, mikilvægt og tímabært verk um risastórt tákn fyrir aldauða,“ segir greinarhöfundur. Hann bendir jafnframt á að þrátt fyrir að aldauði geirfuglsins hafi fljótt fallið í skuggann af aldauða flökkudúfunnar og nær algjörri útrýmingu ameríska vísundsins minni bók Gísla á það mikilvæga hlutverk sem hvarf geirfuglsins af jörðinni hafi haft fyrir skilning okkar á og vandamál tengd eyðingu náttúrulífs af mannavöldum.
Við þetta má bæta að fleiri greinar hafa að undanförnu birst um bók Gísla á bandarískum vefsíðum.
Samið um útgáfu í Japan og Kína
The Last of Its Kind er væntanleg í Bóksölu stúdenta og þá mun hún koma út í Bretlandi í byrjun apríl. Þá hyggst Gísli fylgja henni eftir, m.a. með fyrirlestrum síðar á árinu í Bandaríkjunum, Bretlandi og Danmörku.
Fyrri bækur Gísla hafa einnig vakið mikla athygli og verið þýddar á erlend tungumál. Má þar m.a. nefna bókina „Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér“, sem fjallar um fyrrverandi þræl frá Jómfrúareyjum sem fluttist til Íslands og settist að á Djúpavogi, og hefur verið gefin út á dönsku, frönsku og ensku. Aðspurður hvort „Fuglinn sem gat ekki flogið“ verði gefinn út á fleiri tungumálum segir Gísli að þegar hafi verið samið um útgáfu bókarinnar við tvö erlend forlög, í Japan og Kína.
Nánari upplýsingar um enska útgáfu bókarinnar eru á vef Princeton University Press