Skip to main content

Konunglegar rannsóknarnefndir sem stjórntæki: Borgundarhólmur 1738–1739

Konunglegar rannsóknarnefndir sem stjórntæki: Borgundarhólmur 1738–1739 - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
13. febrúar 2024 16:00 til 17:00
Hvar 

Árnagarður

Stofa 311

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Matthías Aron Ólafsson sagnfræðingur heldur fyrirlestur í Málstofu í félags- og hagsögu sem nefnist Konunglegar rannsóknarnefndir sem stjórntæki: Borgundarhólmur 1738–1739. Málstofan er í stofu 311 í Árnagarði, þriðjudaginn 13. febrúar kl. 16:00-17:00.

Um fyrirlesturinn

Í desember 1737 barst Kristjáni VI. Danakonungi nafnlaust bréf þar sem Niels West amtmaður og stjórn hans á Borgundarhólmi er ásökuð um spillingu og aðra alvarlega glæpi. Rúmu ári síðar skipar konungur rannsóknarnefnd sem dvelur um veturinn 1738–1739 á eyjunni til að rannsaka málið. Úr verður afar áhugavert samansafn heimilda sem er ákveðinn þverskurður af eyjasamfélagi í Eystrasalti. Niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er athyglisverð en í henni er að finna bæði tilslakanir og málamiðlanir gagnvart embættismönnum og íbúum eyjunnar, á sama tíma og ríkisvaldið herðir tök sín. Í erindinu er rætt um störf rannsóknarnefndarinnar á Borgundarhólmi og hún sett í stærra samhengi. Jafnframt er fjallað um hvernig hægt er að rannsaka slíkar nefndir sem vettvang fyrir ríkismyndun „neðan frá“, sem nýttist ekki aðeins miðstjórnarvaldinu í Kaupmannahöfn sem stjórntæki, heldur einnig þegnum þess og embættismönnum til að styrkja stöðu sína.

Um fyrirlesarann

Matthías Aron Ólafsson er BA í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MA í árnýaldarsagnfræði frá Uppsalaháskóla. Hann starfar nú sem sérfræðingur á handritasafni Landsbókasafns.

Matthías Aron Ólafsson.

Konunglegar rannsóknarnefndir sem stjórntæki: Borgundarhólmur 1738–1739