Skip to main content
23. janúar 2024

Japanshátíð í tuttugu ár

Japanshátíð í tuttugu ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árleg Japanshátíð við Háskóla Íslands verður haldin í tuttugasta sinn í Veröld - húsi Vigdísar laugardaginn 27. janúar næstkomandi kl. 13-17. Hátíðin er öllum opin og gefst gestum kostur á að kynnast japanskri menningu, en í ár verður m.a. boðið upp á  fjölbreyttar sýningar, smiðjur, föndurhorn og kynningarbása. Hápunktur hátíðarinnar í ár er sýning á vegum KROM Kendama hópsins, en þeir sýna listir sínar og þrautir með japanska viðarleikfanginu kendama.

Gestir geta einnig tekið þátt í manga-teiknismiðju sem haldin verður í samstarfi við Íslenska myndasögusamfélagið og fengið kennslu í tveimur vinsælum borðspilum, shogi og go, en bæði eiga sér aldagamla sögu. Sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki, sem er mikill áhugamaður um shogi sér um kennsluna, en spilið er einnig þekkt sem „japönsk skák”. Íslenska Go félagið býður gestum og gangandi að spreyta sig á go sem á rætur að rekja til Austur-Asíu og er almennt talið eitt elsta borðspil í heimi.

Sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki, mun kenna gestum á japanska spilið shogi en spilið er einnig þekkt sem „japönsk skák”.

Það eru nemendur og kennarar í japönsku máli og menningu við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands sem skipuleggja hátíðina í samstarfi við Sendiráð Japans á Íslandi og fjölmörg félagasamtök. Helstu styrktaraðilar hátíðarinnar eru Háskóli Íslands og The Scandinavia-Japan Sasakawa Foundation.

Í spilaranum hér að neðan má hlusta á viðtal við Kristínu Ingvarsdóttur, lektor í japönskum fræðum við Mála- og menningardeild HÍ, um námsgreinina og Japanshátíðina.

Dagskrá:

Húsið opnar kl. 13:00

Stakir viðburðir:

  • 13:15-13:30       Opnunarávörp
  • 13:40-14:00      Aikido-sýning
  • 14:00-15:40      Kvikmyndasýning, “Every Day A Good Day”
  • 14:00-15:00      Shogi-örnámskeið með Suzuki sendiherra
  • 14:00-15:00      Manga-teiknismiðja í boði Íslenska Myndasögusamfélagsins
  • 15:00-16:00      Go örnámskeið á vegum Íslenska Go Félagsins
  • 15:30-15:50      Karate-sýning
  • 16:00-17:00      Kendama-sýning

Í gangi 13:00-17:00

  • Go-spilasmiðja
  • Shogi-spilasmiðja
  • Origami föndurhorn
  • Japönsk skriftar- og teiknismiðja
  • Leikhorn með japönskum leikföngum
  • Kynningarbásar

Sjá einnig Facebook-síðu hátíðarinnar.

Japanshátíð verður haldin í Veröld - húsi Vigdísar laugardaginn 27. janúar næstkomandi kl. 13:00-17:00.